99,8% sjónvarpsáhorfenda horfðu á leikinn

AFP

Íslenskir sjónvarpsáhorfendur sátu stjarfir fyrir framan leik Íslands og Austurríkis á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu karla í gærkvöldi, það er 99,8 prósent þeirra.

„99,8% sjónvarpsáhorfenda völdu að horfa á leikinn og má reikna með að þessi 0,2% hafi einfaldlega þurft að skipta á annað til að róa taugarnar,“ segir Kári Jónsson, sérfræðingur Símans í fjölmiðlamælingum, um fyrstu tölur frá Gallup í tilkynningu frá Símanum.

99,8 prósent þeirra sem voru með kveikt á sjónvarpinu á annað borð voru með stillt á leikinn, 68,5 þjóðarinnar horfðu á eitthvað af leiknum og 54,6% horfðu á hann allan.

Í tilkynningu Símans segist Kári búast við að enn fleiri horfi á landsliðið mæta Englendingum á mánudag.

„Mánudagsleikurinn verður ein stærsta sjónvarpsstundin í Sjónvarpi Símans, enda hefur England átt sinn sess í hjörtum okkar knattspyrnuáhugamanna um áratuga skeið. Við erum að keppa við uppeldisliðið. England er draumaandstæðingur.“

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að áhorf í gegnum appið að Sjónvarpi Símans hafi slegið öll met og verið þrefalt meira en vanalega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert