Hlaupari með Zika-veiruna

Kemar Bailey-Cole.
Kemar Bailey-Cole. Ljósmynd/IAAF

Jamaíski spretthlauparinn Kemar Bailey-Cole, sem stefnir á að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst, hefur greinst með Zika-veiruna.

Bailey-Cole, sem er 24 ára og keppir á næstunni um sæti í jamaíska ólympíuhópnum, segist ekki hafa vitað að hann væri sýktur fyrr en eftir að kærasta hans sá hnúð aftan á hálsi hans.

„Ég vissi ekki að ég væri með veiruna og ég hef núna æft í þrjá daga með hana,“ sagði hlauparinn við Jamaica Gleaner. Hann segir erfitt að jafna sig en er hættur að finna fyrir vöðvaverkjum og ætlar ekki að láta veiruna stöðva sig.

Veiran veldur alvarlegum fæðingargalla hjá börnum og óttinn við hana hefur sett sinn svip á aðdraganda Ólympíuleikanna. Íþróttamenn á borð við kylfinginn Rory McIlroy hafa meðal annars hætt við þátttöku á leikunum vegna hennar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst yfir alþjóðlegu neyðarástandi en segir ekki þörf á að flytja eða fresta leikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert