Forsetalegt aðaltorg í Nice

Eliza, Dorrit og Guðni Th. voru hress og kát við …
Eliza, Dorrit og Guðni Th. voru hress og kát við aðdáendasvæðið í Nice. mbl.is/Golli

Samfélagið á Massena torgi í miðborg hinnar sólríku Nice við Miðjarðarhafsströnd Frakklands var með mjög íslenskum brag upp úr hádegi í dag. Ekki nóg með að þar væru fjölmargir Íslendingar, bláir og syngjandi glaðir, heldur voru þar bæði núverandi forseti lýðveldisins og sá nýkjörni, Ólafur Ragnar Grímsson og Guðni Th. Jóhannesson. Hittust þar fyrir tilviljun sem var einkar ánægjulegt og vakti verðskuldaða athygli viðstaddra, bæði landa þeirra og annarra.

Nokkur hundruð manns komu með flugi beint til Nice frá Keflavík í gærkvöldi og stór vél Icelandair kom um hádegisbil í dag. Með henni voru bæði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og eftirmaður hans, Guðni Th Jóhannesson, ásamt eiginkonum sínum. Með yngri hjónunum er átta ára sonur þeirra, Duncan Tindur.

Eliza, Guðni Th., Ólafur Ragnar og Dorrit á Massena-torgi í …
Eliza, Guðni Th., Ólafur Ragnar og Dorrit á Massena-torgi í Nice, skammt frá aðdáenda-svæðinu. mbl.is/Golli

Ólafur Ragnar fór beint frá borði út í bílalest og var ekið á brott í lögreglufylgd, eins og hefðbundið er með þjóðhöfðingja og Guðni fékk sömu meðferð hjá Frökkunum. Kvaðst hann óvanur slíku en alls ekki mótmælta því að þurfa ekki að standa í biðröð!

Blaðamenn Morgunblaðsins og mbl.is mæltu sér mót við Ólaf Ragnar á hóteli hans steinsnar frá umræddu torgi. Á torginu, þar sem er Fan Zone, sem svo er kallað, svæði ætlað stuðningsmönnum liðanna, var tekið upp viðtal fyrir mbl.is. Símtal við Guðna, áður en mbl.is ræddi við Ólaf Ragnar, leiddi í ljós að hann bjó á hóteli stutt frá hóteli forsetans. Ráðgerðum við að hittast fljótlega en hann ætlaði að rölta út með konu og syni og fá sér að borða.

Þegar viðtalinu við Ólaf var nýlega lokið gengu svo Guðni Th, Eliza Reid kona hans og sonurinn, inn á torgið í leit að veitingastað. Ekki varð af þeim áformum að snæða alveg í bráð því Íslendingar flykktust að þeim, bæði til að óska Guðna til hamingju með kjörið, biðja hann að sitja fyrir á mynd og ræða um daginn og veginn eins og Íslendinga er siður!

Dorrit og Eliza ræða saman í Nice.
Dorrit og Eliza ræða saman í Nice. mbl.is/Golli

Dorrit Moussaeff, eiginkona Ólafs Ragnars, er með í för og sagðist, í samtali við höfund þessa pistils, sannfærð um Ísland myndi sigra í kvöld. Á öðrum nótum mætti hreinlega ekki tala! Það vissi ekki á gott. Þegar henni var bent á að færi Ísland með sigur af hólmi yrði næsti leikur í París á sunnudaginn sagði hún þau Ólaf auðvitað vera að fara þangað! Velti því fyrir sér hvort þau hefðu þegar skipulagt eitthvað sérstakt þá. Ólafur var að ræða við fréttamann RÚV þegar þetta var en Dorrit var fljót að nefna þetta þegar hann losnaði þaðan...

Guðni Th. sat fyrir á selfie í Nice.
Guðni Th. sat fyrir á selfie í Nice. mbl.is/Golli

Forsetinn vildi hins vegar ekki spá um úrslit en Guðni Th spáir 1:0 fyrir Íslandi. Nefndi að sögulegt yrði ef Eiður Smári Guðjohnsen, sem kæmi inn á sem varamaður, myndi gera sigurmarkið eftir hornspyrnu frá Gylfa Sigurðssyni. Fróðlegt verður að sjá hvort spá sagnfræðingsins, sem vanur er að velta fyrir sér fortíðinni, rætist í kvöld. Þessari óvæntu en bráðskemmtilegu uppákomu á Massena-torgi lauk með því að Ólafur Ragnar, Dorrit, Guðni Th. og Elísa stilltu sér upp saman og þá skutu ljósmyndarar í gríð og erg, bæði atvinnumenn og nærstaddir áhugamenn. Sannarlega áhugaverð uppákoma og ólíklegt að forsetar annarra þjóða kæmust í aðstæður sem þessar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert