Tólfan ekki á Frakkaleiknum

Mögulega verður Tólfan ekki á meðal áhorfenda í París á …
Mögulega verður Tólfan ekki á meðal áhorfenda í París á sunnudaginn. mbl.is/Eggert

Óvíst er hvort nokkrir af helstu stuðningsmönnum íslenska landsliðsins og meðlimir Tólfunnar verða á áhorfendapöllunum í París á sunnudaginn þegar íslenska landsliðið mætir því franska. Ekki er því víst að trommuslátturinn, sem hefur knúið stuðninginn af pöllunum, heyrist í leiknum mikilvæga. 

Þetta sagði Benjamín Hallbjörnsson, formaður Tólfunnar, í samtali við mbl.is skömmu eftir að hafa ekið heim af flugvellinum í dag. Hann flaug ásamt öðrum Tólfumönnum til landsins eftir leikinn við Englendinga í gær og sér ekki fram á að fara aftur út á leikinn á sunnudaginn. „Það er náttúrlega hálffúlt en svona er staðan,“ sagði Benjamín.

Þeir félagar höfðu farið í gegnum heilmikið ferli til að fá leyfi fyrir því að vera með trommur á pöllunum á keppninni og hann segir útilokað að aðrir gætu fengið slík leyfi með svo skömmum fyrirvara.

KSÍ bauð tíu meðlimum sveitarinnar á leikinn á móti Englandi en svipuð staða kom upp eftir að ljóst var að Ísland næði í 16 liða úrslitin enda ljóst að þeir félagar leika stórt hlutverk á áhorfendapöllunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert