Sigur Íslands blóðmjólkar Norska getspá

Fjölmargir Norðmenn græddu á sigri Íslands í gær.
Fjölmargir Norðmenn græddu á sigri Íslands í gær. AFP

Leikur Íslands og Englands á EM í gær setti met hjá Norsk Tipping, sem heldur utan um íþróttagetraunir og lottó í Noregi, þegar 28.000 Norðmenn veðjuðu á leikinn en að sögn Roar Jødahl, upplýsingafulltrúa Norsk Tipping, er það mesti fjöldi sem veðjað hefur á einn kappleik það sem af er árinu. Frá þessu greinir norski miðillinn P4.

Einhverjir af þessum fjölda hafa greinilega ákveðið að treysta frændum sínum Íslendingum til að rúlla yfir Englendinga því Jødahl viðurkennir að hjá Norsk Tipping hafi menn vaknað upp við eldrauðar tölur í morgun. „Við fengum að sjá rautt, við töpuðum stórfé á Íslendingum í gær,“ sagði Jødahl í samtali við útvarpsstöðina P4 í morgun, en vinningsstuðullinn fyrir sigur Íslands var 7,25-föld veðmálsupphæðin.

Ekki fékkst uppgefið hve margir af þessum 28.000 veðjuðu á réttan hest en greinilegt á tapinu að þeir voru þó nokkrir. Jødahl segist ekki búast við minni áhuga á veðmálum um leik Íslands og Frakklands á sunnudag og klykkir út með því að í gær hafi fjöldi fólks, sem aldrei veðjar á fótbolta og hefur engan áhuga á honum almennt, látið slag standa sem þeim hjá Norsk Tipping þyki auðvitað hið besta mál.

Ætli Norðmaðurinn flissandi hafi einmitt veðjað á leikinn?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert