Takk fyrir, strákar!

Þriggja vikna sannkallaðri ævintýraför Íslendinga á Evrópumóti karla í knattspyrnu lauk ekki á þann veg sem þjóðin vonaði. En þrátt fyrir tap í síðasta leik í gærkvöldi gegn gestgjöfunum, Frökkum, sem gætu hæglega sigrað á mótinu, ganga Íslendingar stoltir frá borði.

Það var áberandi, hvar sem komið var í Frakklandi, til Parísar, Nice, Marseille, Saint-Étienne eða smábæjarins Annecy í Alpafjöllunum, þar sem landsliðið hafði bækistöðvar meðan það var á EM, hve fólk hreifst af landsliði Íslendinga og stuðningsmönnunum. Mörgum þótti með hreinum ólíkindum hvað þessi fámenna þjóð úr norðri hafði afrekað. Og ekki má gleyma því að í þessari fyrstu úrslitakeppni Evrópumóts sem karlalandsliðið tekur þátt í tapaði það aðeins þessum eina leik, gerði tvö jafntefli og sigraði í tveimur leikjum; sló meðal annars England út í 16 liða úrslitum með 2:1 sigri. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar!

Það var ógleymanlegt að vera á Stade de France í gærkvöldi. Hátt í klukkustund eftir að flautað var til leiksloka, þegar allir frönsku stuðningsmennirnir voru löngu farnir sungu þeir íslensku enn hástöfum og hylltu sína menn sem komu að áhorfendapöllunum til að þakka fyrir sig. Rigningin skipti engu máli!

Öll ævintýri taka enda og þessu í Frakklandi er lokið. En góð innistæða er fyrir því að hlakka til næstu ára. Takk, strákar!

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert