Kópavogsvöllur ekki nothæfur

Meistaramót Íslands var haldið á Kópavogsvelli í fyrra.
Meistaramót Íslands var haldið á Kópavogsvelli í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert verður af því að Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum verði haldið á Kópavogsvelli um aðra helgi, eins og til stóð, en vegna ófullnægjandi aðstæðna þar hefur mótið verið flutt til Akureyrar og verður haldið á Þórsvellinum dagana 23. og 24. júlí.

Eiríkur Mörk, formaður frjálsíþróttadeildar Breiðabliks, segir í  viðtali við Kópavogspóstinn í dag að Kópavogsbær hafi ekki sinnt eðlilegu viðhaldi á frjálsíþróttahluta Kópavogsvallar.

„Brautamerkingar eru orðnar svo máðar að völlurinn telst ekki hæfur fyrir Meistaramót Íslands. Það hefði kostað bæinn þrjár milljónir að merkja allt frjálsíþróttasvæðið, ekki há upphæð í bókhaldi bæjarins. Til samanburðar má nefna að tekjutap deildarinnar að viðbættum útgjaldaauka vegna flutnings á mótinu kostar frjálsíþróttadeildina yfir milljón, nánast 10% af veltu deildarinnar í fyrra. Fyrir utan álitshnekkinn verður deildin fyrir mjög miklu fjárhagslegu tjóni. Þetta er ömurlegt fyrir frjálsíþróttadeildina. Veit ekki hvaða orð ég ætti að velja fyrir frammistöðu bæjarins, en varla eru menn stoltir þar á bæ,“ segir Eiríkur við Kópavogspóstinn.

Í máli hans kom jafnframt fram að frjálsíþróttadeild Breiðabliks hefði orðið út undan við uppbyggingu íþróttaaðstöðu. „Góð uppbygging hefur skilað öðrum íþróttagreinum miklu, bæði í árangri og fjölda iðkenda. Hugmyndir um frjálsíþróttahús sem komu fram fyrir þremur árum eru ekkert komnar áleiðis og sitja fastar hjá aðalstjórn Breiðabliks,“ segir Eiríkur enn fremur í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert