Rússar áfrýja keppnisbanni

Ólympíumótið byrjar 7. september.
Ólympíumótið byrjar 7. september. AFP

Alþjóða Ólympíusamband fatlaðra fer þessa dagana yfir fjölda beiðna þess efnis að aflétta keppnisbanni á rússnesku íþróttafólki sem vill keppa á Ólympíumóti fatlaðra sem hefst í Ríó 7. september.

Um er að ræða yfir hundrað manns af þeim 266 sem áttu að keppa í Ríó fyrir hönd Rússlands.

Rússar voru dæmdir í keppnisbann í fjölda greina á nýafstöðnum Ólympíuleikum eftir skipulagða og ítrekaða misnotkun frammistöðubætandi lyfja. Þar var þó sérsamböndum hverrar greinar leyft að ákveða hvort Rússar yrðu með og því náði bannið ekki yfir allt íþróttafólk frá Rússlandi.

Á Ólympíumóti fatlaðra var hins vegar búið að ákveða að enginn Rússi fengi keppnisrétt, óháð því hvaða íþrótt viðkomandi stundaði.

Olesya Vladykina er ein þeirra sem sækja um keppnisrétt, en hún varð Ólympíumeistari í 100 m bringusundi í Peking 2008 á nýju heimsmeti.

„Það er engin ástæða til þess að meina mér þátttöku. Ég hef sent öll nauðsynleg gögn til að keppa í Ríó og mun halda áfram að berjast í nafni sannleikans og til að hreinsa nafn mitt,“ sagði Vladykina í Facebook-færslu á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert