„Ég er alveg himinlifandi“

Júlían J. K. Jóhannsson.
Júlían J. K. Jóhannsson. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er bara alveg himinlifandi, alveg rosalega ánægður með þetta,“ sagði Júlían K. Jóhannsson, nýbakaður heimsmeistari ungmenna í kraftlyftingum, 23 ára og yngri, í samtali við mbl.is í dag. Hann varði þá titil sinn á HM sem fram fór í Póllandi, en um var að ræða síðasta mótið hans í þessum aldursflokki.

Sjá: Júlían varði heimsmeistaratitil sinn

„Æfingar eru búnar að ganga mjög vel fram að mótinu, svona þannig séð. Ég hef æft þungt og oft verið nálægt meiðslum en sem betur fer sloppið við það. Svo ég vissi að ég ætti mikið inni, það var bara málið að ná því fram. Maður veit aldrei með þessi mót, þau geta farið á alla vegu. En þetta gekk allt upp í dag,“ sagði Júlían.

Júlían lyfti 400 kg í hnébeygju, 310 kg í bekkpressu og 370 kg í réttstöðulyftu. Það er bæting á Íslandsmeti í öllum greinunum og samanlagt lyfti hann 1.080 kg sem jafnframt er hans besta.

Uppskera eftir löng fjögur ár

„Þessar framfarir eru að koma eftir mikla vinnu. Eftir fjögur löng ár þar sem ég hef verið að fínpússa stílinn og oft gengið mjög vel, þá er afraksturinn að koma í ljós núna. Og það var það sem ég lagði upp með, að þetta yrði árið sem ég mundi uppskera eftir langt uppbyggingartímabil,“ sagði Júlían, sem setur nú stefnuna á fullorðinsflokk og mun meðal annars keppa á HM í Flórída í nóvember.

„Maður vinnur ekki svona titla af því maður er sterkur, heldur af því að maður mætir og gerir það sem þarf að gera. Það var mjög góð stemning á mótinu og það var mjög skemmtilegt í heildina,“ sagði Júlían.

Tveir aðrir Íslendingar tóku þátt á mótinu. Þorbergur Guðmundsson fékk brons í +120 kg flokki og Viktor Samúelsson fékk brons í -120 kg flokki.

„Það myndast alveg frábær stemning í svona keppnisferðum. Við höfum þekkst lengi, við Viktor kepptum saman á okar fyrsta alþjóðlega móti fyrir 5-6 árum, það myndast sterk tengsl og allir eru góðir vinir. Gaman að sjá góða uppskeru hjá okkur öllum,“ sagði Júlían K. Jóhannsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert