Ólympíuandinn í skugga spillingar

Ólympíuleikarnir eru nýafstaðnir í Ríó. Ekki eru þó öll kurl …
Ólympíuleikarnir eru nýafstaðnir í Ríó. Ekki eru þó öll kurl komin til grafar hvað varðar aðdraganda þeirra. AFP

„Á þeim sjö árum sem ég fylgdist með aðdraganda Ólympíuleikanna í Ríó áttaði ég mig á því að hinn svokallaði ólympíuandi helst ekki alltaf í hendur við gagnsæi, frjálsa fjölmiðlun eða upplýsingaflæði.“

Svona hefst pistill Jamil Chade, brasilísks blaðamanns, sem birtist í dálki á vef Transparenci International, sem eru alþjóðleg samtök sem berjast gegn spillingu. Chade þessi fylgdist grannt með Ólympíuleikunum í Ríó sem nú eru nýafstaðnir; allt frá því borginni var úthlutað leikunum fyrir sjö árum og allt til enda.

Í aðdraganda leikanna voru meint spillingarmál í umræðunni og greinir Chade frá áður óþekktum staðreyndum sem hann upplifði frá fyrstu hendi, bæði í starfi sínu sem blaðamaður í Ríó sem og í samskiptum sínum við Alþjóðaólympíusambandið.

Chade er búsettur í Sviss og þær grundvallarspurningar sem hann hefur að leiðarljósi í úttekt sinni, sem er til umfjöllunar hér að neðan, gætu jafnvel orðið til þess að hann verði ekki velkominn aftur til heimalandsins.

Hverjir munu í raun þurfa að borga brúsann sem fylgdi Ólympíuleikunum? Hverjir græddu á meðan? – Til hverra rann hið raunverulega Ólympíugull?

Séð yfir Ríó í átt að Ólympíuleikvangnum.
Séð yfir Ríó í átt að Ólympíuleikvangnum. AFP

Aðhald sem varð að innanhúsrannsókn

Chade fylgdist með aðdraganda Ólympíuleikanna í sjö ár, áður en að leikunum kom. Hann segist hafa komist yfir mörg leynileg skjöl hvað varðar undirbúninginn, þar sem meðal annars var greint frá víðtækum fjárhagsvanda, töfum á byggingu mannvirkja og fleiru. Aðeins brot af því kom fram í fjölmiðlum, þar sem reynt var að halda öllu sléttu og felldu út á við.

Sjá frétt mbl.is: Er Ríó-borg reiðubúin?

Chade gerði sum af þessum skjölum opinber, þar sem hann taldi þau eiga erindi við almenning. Hann bjóst við því að það myndi gefa Alþjóðaólympíusambandinu og forsvarsmönnum leikanna í Ríó frekara aðhald, en svo var ekki. Þvert á móti eyddi Ólympíusambandið miklu púðri í að koma upp kerfi þar sem hægt væri að rannsaka það og rekja til þeirra einstaklinga innanhúss sem lækju skjölum til fjölmiðla.

Ástæðan sem Alþjóðaólympíusambandið skýldi sér á bak við er að það sé ekki opinber stofnun og „þurfi“ því ekki að hafa allt uppi á borðum. Málið er hins vegar flóknara en svo.

Setningarhátíð Ólympíuleikanna var öll hin glæsilegasta.
Setningarhátíð Ólympíuleikanna var öll hin glæsilegasta. AFP

Taka afganginn en skilja eftir skuldirnar

Þrátt fyrir að sambandið sé vissulega ekki opinber aðili lagalega séð, þá dugar sú staðhæfing skammt þegar Ólympíuleikarnir eiga í hlut. Staðreyndin er sú að þegar Ólympíusambandið skrifar undir samning við borg um að halda leikana, þá eru þarlend ríki að skuldbinda sig til þess að hlaupa undir bagga ef eitthvað kemur upp.

Það þýðir aðeins eitt, að ef Ólympíuleikarnir skila afgangi rennur það til Alþjóðaólympíusambandsins og skipulagsnefndar leikanna. Ef þeir hins vegar skila tapi, þá sitja íbúar svæðisins eftir í súpunni vegna skuldbindingar stjórnvalda.

Sjá frétt mbl.is: Verða þeir þess virði?

En það sem meira er, þessir sömu íbúar eiga ekki rétt á því að fylgjast með fjármálahliðinni í aðdraganda Ólympíuleikanna. Alþjóðaólympíusambandið er sem fyrr segir ekki opinber aðili og er því ekki undir eins ströngum reglum hvað varðar gagnsæi. Íbúarnir geta því ekki haft neitt aðhald á útgjöldum í aðdraganda leikanna. Útgjöldum sem þeir gætu setið uppi með.

Jamil Chade segir að fjölmiðlar hafi verið skipulega afvegaleiddir.
Jamil Chade segir að fjölmiðlar hafi verið skipulega afvegaleiddir. AFP

Umræðan afvegaleidd á skipulagðan hátt

Eitt af stóru málunum í aðdraganda Ólympíuleikanna í Ríó var staðreyndin um hversu mengaður Guanabara-flóinn væri, þar sem róðrarkeppnirnar færu fram, og var því mikið slegið upp í fréttum. Chade upplýsir hins vegar að forsvarsmenn hafi viðurkennt fyrir sér að málið hafi verið blásið upp til þess að afvegaleiða fjölmiðla um hin raunverulegu vandamál; peningahliðina í aðdraganda leikanna og spillingu sem henni fylgdi.

Haldnir voru daglegir blaðamannafundir á meðan leikarnir stóðu yfir til þess að fara yfir málefni líðandi stundar. Á einum slíkum fundi spurði Chade hvernig hefði verið staðið að málum þegar samið var við ákveðið verktakafyrirtæki um tilteknar framkvæmdir fyrir leikana. Fátt var um svör.

Hótað fyrir að spyrja rangra spurninga

„Einn af háttsettum aðilum innan skipulagsnefndar leikanna kom að borðinu mínu í blaðamannasetrinu og vildi tala við mig. Tilefnið var bara eitt; að svona spurningum ætti ekki að vera flaggað á opinberum vettvangi,“ skrifar Chade, sem áður hafði átt í miklum samskiptum við þennan mann í aðdraganda leikanna.

„Hann hótaði mér því í rauninni að ef ég ætlaði að spyrja svona spurninga á þessum fundum þá myndi hann ekki svara símtölum frá mér eins og hann hafði gert áður.“ Það var því ljóst að það var ekki sama hvaða spurningar voru samþykktar af yfirvaldi leikanna.

Sjálfboðaliði hoppar upp í loft fyrir framan ólympíuþorpið í Ríó.
Sjálfboðaliði hoppar upp í loft fyrir framan ólympíuþorpið í Ríó. AFP

Meinuð aðganga að „ástæðulausu“

Chade var einn af fáum þeirra þúsunda fjölmiðlamanna sem voru á leikunum sem höfðu aðgangspassa að fimm stjörnu hótelinu þar sem toppar Alþjóðaólympíusambandsins héldu sig í Ríó. Nokkrum dögum eftir atvikið á blaðamannafundinum var honum hins vegar meinuð aðganga og sagt að passinn hans væri ekki virkur lengur.

Engin ástæða var gefin fyrir því og Chade óskaði eftir því að fá að tala við þann sem tók ákvörðunina um að neita honum um aðgang. Því var hafnað, en Chade krafðist svara og fékk aðeins að vita að það væri ákvörðun sem hefði komið að ofan.

Chade vakti athygli á málinu á samskiptamiðlum og náði loks til eyrna Alþjóðaólympíusambandsins, þar sem honum var tilkynnt að um mistök væri að ræða. En tímasetningin var engin tilviljun.

Patrick Hickey, forseti Evrópsku- og írsku Ólympíunefndarinnar, var handtekinn í …
Patrick Hickey, forseti Evrópsku- og írsku Ólympíunefndarinnar, var handtekinn í Ríó. AFP

Athyglinni dreift frá handtöku

Þennan sama dag og Chade hafði ætlað að komast inn á hótelið var á þessum sama stað verið að handtaka Patrick Hickey, forseta erópsku og írsku ólympíunefndarinnar, sem einnig á sæti í hinni alþjóðlegu nefnd. Hann á að hafa lagt á ráðin um að selja miða sem Írum voru úthlutaðir á leikana í Ríó með ólöglegum hætti.

Sjá frétt mbl.is: Forseti handtekinn fyrir miðabrask í Ríó

Sjá frétt mbl.is: „Ótrúlegt ef hann er viðriðinn þetta“

Það hafði því verið skipulögð aðgerð að halda Chade og fleiri fjölmiðlamönnum frá hótelinu á meðan á handtökunni stóð. Þegar passi þeirra var tekinn í gildi á ný var hins vegar búið að flytja Hickey á brott. Það hafði tekist að dreifa athygli fjölmiðla.

Ólympíuleikvangurinn í Ríó er mikið mannvirki.
Ólympíuleikvangurinn í Ríó er mikið mannvirki. AFP

Topparnir græddu í skugga niðursveiflu

Þremur dögum fyrir lok Ólympíuleikanna var birt skýrsla um tekjur þeirra sem gegndu stöðu framkvæmdastjóra hjá skipulagsnefnd leikanna, Rio2016. Átta talsins skiptu þeir á milli sín 26 milljónum brasilískra reala, rúmum 900 milljónum íslenskra króna, í greiðslum síðustu fjögur árin. Þá á eftir að reikna með tekjum þessa árs, sem reiknað er með að verði enn hærri á sjálfu ólympíuárinu.

„Að fá vel borgað er ekki vandamálið. Vandamálið er hins vegar að þessar fjárhæðir voru greiddar í laun yfirmanna á meðan efnahagur Brasilíu var í mikilli niðursveiflu. Á sama tíma og skipulagsnefndin var skyldug til þess að mæta tímamörkum og ríkið gæti þurft að grípa inn í til þess að bjarga leikunum,“ skrifar Chade.

„Á meðan nokkrir aðilar urðu ríkir lenti tekjuhalli leikanna á hinum almenna borgara.“

Fellur hinn sanni Ólympíuandi í skugga spillingar?
Fellur hinn sanni Ólympíuandi í skugga spillingar? AFP

„Ódýr æsifrétt“ sem kom of seint

Chade birti frétt um greiðslurnar þetta sama kvöld, þremur dögum fyrir lok leikanna. Hann fékk fljótlega skilaboð frá hátt settum manni innan skipulagsnefndarinnar sem spurði í reiðilegum tón hvort honum fyndist þetta vera rétti tímapunkturinn til þess að birta svo ódýra æsifrétt.

„Þetta var rétt hjá honum. Þetta var ekki rétti tímapunkturinn. Þetta var í rauninni of seint; þessar upplýsingar hefðu átt að vera opinberar mörgum árum áður,“ skrifar Chade.

Þrátt fyrir að Ólympíuleikunum í Ríó sé nú lokið eru saksóknarar rétt að hefja rannsókn á þeirri meintu spillingu sem átti sér stað í aðdraganda þeirra. Er þar um að ræða byggingu mannvirkja, hreinsun Guanabara-flóans og samninga á milli skipulagsnefndarinnar og yfirvalda. Svo fátt eitt sé nefnt.

Enginn veit hvenær niðurstaða þeirrar rannsóknar liggur fyrir.

Hver hreppti hið raunverulega Ólympíugull, spyr Jamil Chade.
Hver hreppti hið raunverulega Ólympíugull, spyr Jamil Chade. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert