Ásdís bætti 34 ára gamalt Íslandsmet

Ásdís Hjálmsdóttir gæti orðið Íslandsmethafi í þremur kastgreinum.
Ásdís Hjálmsdóttir gæti orðið Íslandsmethafi í þremur kastgreinum.

Ásdís Hjálmsdóttir hefur verið Íslandsmethafi í spjótkasti í rúmlega 11 ár en nú hefur hún sett nýtt Íslandsmet í annarri frjálsíþróttagrein og stefnir á fleiri met í dag.

Ásdís bætti Íslandsmetið í kúluvarpi innanhúss, sem orðið var 34 ára gamalt, þegar hún kastaði 15,95 metra í gær. Frá þessu greinir Ásdís á Facebook-síðu sinni. Guðrún Ingólfsdóttir úr KR átti gamla metið en það var 15,64 metrar.

Ásdís náði einnig þeim áfanga að kasta kringlu yfir 50 metra í fyrsta sinn, eða nánar tiltekið 50,63 metra. Íslandsmetið í kringlukasti á fyrrnefnd Guðrún, sem setti það árið 1982, en hún kastaði 53,86 metra.

Ásdís ætlar sér að bæta Íslandsmetið í kringlukasti kl. 17 í dag, sem og Íslandsmetið í kúluvarpi utanhúss, á kastvellinum í Laugardal (á milli World Class og Laugardalsvallar). Íslandsmetið í kúluvarpi utanhúss er frá 1992 en þá kastaði Guðbjörg Hanna Gylfadóttir úr USAH 16,33 metra.

„Ég er ótrúlega ánægð en á sama tíma veit ég að það býr enn meira í mér. Á morgun [í dag] mun ég reyna aftur við Íslandsmetið í kringlukasti og við metið í kúluvarpi utanhúss, á vellinum þar sem ferðalagið mitt hófst. Ég er mjög spennt og mun þurfa allan þann stuðning sem ég get fengið,“ skrifaði Ásdís á Facebook í gærkvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert