Sigursælir EM-farar leita til íslenskra fyrirtækja

Hópfimleikalandsliðin sýndu listir sínar á opinni æfingu á dögunum þar …
Hópfimleikalandsliðin sýndu listir sínar á opinni æfingu á dögunum þar sem fjölmargir áhorfendur fylgdust með. mbl.is/Golli

Landslið Íslands í hópfimleikum eru á leið á Evrópumeistaramótið í Maribor í Slóveníu um miðjan október. Fimleikasambandið hefur leitað til íslenskra fyrirtækja eftir stuðningi við verkefnið.

Fimleikasambandið setti af stað átakið Vertu mEMm til að safna fyrir ferðinni. Ísland sendir fjögur lið á mótið en þar er um að ræða kvennalið, stúlknalið og blandað lið í unglinga- og fullorðinsflokki. Íslenska kvennalandsliðið varð Evrópumeistari árin 2010 og 2012 og fékk silfur 2006, 2008 og á heimavelli fyrir tveimur árum.

Hver einasti landsliðsmaður Íslands hefur þurft að greiða sjálfur 350.000 krónur vegna þátttöku á mótinu í ár. Framlag úr Afrekssjóði ÍSÍ er aðeins örlítið brot af því fjármagni sem þarf. Fimleikasambandið hefur því leitað til fyrirtækja eftir fjárstyrk og þegar þetta er skrifað hafa safnast samtals 1.390.000 krónur frá 29 fyrirtækjum. Söfnunin gengur þannig fyrir sig að hvert fyrirtæki sem styrkir verkefnið getur skorað á tvö fyrirtæki til viðbótar.

Á heimasíðu söfnunarátaksins er á það bent að hópfimleikar séu ein fjölmennasta og vinsælasta íþrótt á Íslandi, og að fjórða hver stúlka 18 ára og yngri æfi fimleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert