Freyja Mist Norðurlandameistari og setti met

Freyja Mist Ólafsdóttir varð Norðurlandameistari.
Freyja Mist Ólafsdóttir varð Norðurlandameistari. Ljósmynd/LSÍ

Sex af sjö fulltrúum Íslands á Norðurlandamótinu í ólympískum lyftingum í Rovaniemi í Finn­landi komust á verðlaunapall nú um helgina. Freyja Mist Ólafsdóttir varð Norðurlandameistari og setti Norðurlandamet í unglingaflokki. 

Í -58 kg flokki varð Jakobína Jónsdóttir í 2. sæti en hún lyfti 73 kg í snörun og 90 kg í jafnhendingu.

Í -63 kg flokki kvenna varð Anna Hulda Ólafsdóttir í 3. sæti en hún snaraði nýju Íslandsmeti, 82 kg, og jafnhenti 95 kg. Björk Óðinsdóttir varð önnur í flokknum en hún bætti met Önnu um 1 kg þegar hún snaraði 83 kg og jafnhenti 100 kg. Björk átti frábæra tilraun við 106 kg sem hún fór með upp fyrir haus en fékk ógilda fyrir pressu. Það hefði tryggt Björk Norðurlandameistaratitilinn í miklum baráttuflokki.

Aníta Líf Aradóttir vann silfur í -69 kg flokki með 75 kg í snörun og 100 kg í jafnhendingu.

Freyja Mist Ólafsdóttir keppti í -75 kg flokki og byrjaði á að setja Norðurlandamet unglinga 20 ára og yngri og Íslandsmet í fullorðinsflokki þegar hún snaraði 82 kg og átti síðan góða tilraun til að bæta metin enn frekar þegar hún reyndi við 86 kg. Í jafnhendingu tryggði hún sér Norðurlandameistaratitilinn í fyrstu tilraun en reyndi síðan tvisvar sinnum við Norðurlandametið í jafnhendingu 20 ára og yngri með 102 kg en náði því ekki að þessu sinni.

Einar Ingi Jónsson vann brons í -69 kg flokki karla þegar hann snaraði 110 kg og jafnhenti nýtt Íslandsmet, 143 kg. Einar reyndi í lokatilraun við nýtt Norðurlandamet unglinga 146 kg sem hann lyfti en fékk ógilt fyrir pressu.

Ingólfur Þór Ævarsson varð svo í 5. sæti í -105 kg flokki en hann snaraði 120 kg og jafnhenti 162 kg.

Öll úrslit má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert