Sex keppa á HM í karate í Austurríki

Íslenski hópurinn á HM í karate í Linz, frá vinstri: …
Íslenski hópurinn á HM í karate í Linz, frá vinstri: Ingólfur Snorrason, Elías Snorrason, Kristín Magnúsdóttir, Svana Katla Þorsteinsdóttir, Arna Katrín Kristinsdóttir, Telma Rut Frímannsdóttir, Ólafur Engilbert Árnason og Reinharð Reinharðsson. Ljósmynd/KAÍ

Ísland mun eiga sex fulltrúa á heimsmeistaramótinu í karate sem hefst í Linz í Austurríki á morgun og stendur yfir fram á sunnudag.

Íslensku keppendurnir keppa bæði í einstaklingsflokki og liðakeppni. Á HM er keppt í 16 mismunandi flokkum í kata og kumite, auk þess sem keppni í kumite er skipt upp í þyngdarflokka. Alls senda 118 lönd keppendur á mótið og eru þeir um 1.150 talsins. Hver þjóð getur einungis sent einn keppanda í hver flokk.

Elías Snorrason, Ólafur Engilbert Árnason, Svana Katla Þorsteinsdóttir og Telma Rut Frímannsdóttir keppa í einstaklingsflokkum á morgun, miðvikudag. Svana Katla keppir svo með Örnu Katrínu Kristinsdóttur og Kristínu Magnúsdóttur í hópkata á fimmtudag. Öll úrslit fara svo fram á laugardag og sunnudag.

Keppendur Íslands:
Arna Katrín Kristinsdóttir, hópkata kvenna (28 lið)
Elías Snorrason, kata karla (74 keppendur)
Kristín Magnúsdóttir, hópkata kvenna (28 lið)
Ólafur Engilbert Árnason, kumite karla -75 kg (83 keppendur)
Svana Katla Þorsteinsdóttir, kata kvenna (65 keppendur), hópkata kvenna (28 lið)
Telma Rut Frímannsdóttir, kumite kvenna -61 kg (64 keppendur)

Með keppendum í för er Ingólfur Snorrason, landsliðsþjálfari í kumite, og Reinharð Reinharðsson, formaður Karatesambands Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert