Ísland nær sögulegum áfanga á HM

Íslenska kvennalandsliðið í blaki.
Íslenska kvennalandsliðið í blaki. Ljósmynd/Blaksamband Íslands

Dregið hefur verið í riðla í 2. umferð HM í blaki sem fram fer næsta vor. Íslensku blaklandsliðin voru bæði í pottinum í morgun þegar dregið var og má með sanni segja að liðin fái verðuga mótherja í 2. umferðinni. Þangað hefur Ísland aldrei komist áður.

Önnur umferðin verður leikin 23.-28. maí 2017 en það er rétt fyrir næstu Smáþjóðaleika sem verða í San Marino. Karlalandsliðið leikur í A riðli undankeppninnar í Evrópu en sá riðill fer fram í Frakklandi.

A riðill:
Frakkland
Þýskaland
Tyrkland
Úkraína
Azerbaijan
Ísland 

Það er ljóst að karlaliðið mun leika við mjög sterkar þjóðir í þessum riðli en heimamenn í Frakklandi eru núverandi Evrópumeistarar í blaki karla. Frakkar eru í efsta sæti Evrópulistans og í 9. sæti heimslistans. Þjóðverjar eru í 7. sæti Evrópulistans en í 11. sæti heimslistans. Önnur lið eru fyrir ofan Ísland á báðum listum en okkar menn sitja í 41. sæti Evrópulistans og 118. sæti heimslistans. 

Kvennalandsliðið leikur í B riðli undankeppninnar í Evrópu en sá riðill fer fram í Póllandi.

B Riðill:

Pólland
Serbía
Tékkland
Slóvakía
Kýpur
Ísland 

Kvennalandsliðið leikur einnig gegn mjög sterkum þjóðum í Póllandi. Serbía spilaði til úrslita á síðustu Ólympíuleikum í Ríó en tapaði fyrir Kína. Serbía er í þriðja sæti heimslistans í blaki kvenna og í öðru sæti Evrópulistans. Pólland er í 22. sæti heimslistans og 9. sæti Evrópulistans. Önnur lið í riðlinum eru fyrir ofan Ísland á báðum listum en okkar lið er í 41. sæti Evrópulistans og 97. sæti heimslistans. 

Það er ljóst að um gríðarlega stórt skref er að ræða hjá blaklandsliðunum. Þetta er í fyrsta sinn sem liðin komast í áfram í 2. umferð HM.

„Liðin hafa aldrei leikið gegn þessum stóru þjóðum sem eru augljóslega sterkari á pappírunum. En að komast á þetta stig hefur mjög mikið að segja fyrir okkar íþrótt og uppgang hennar hér á Íslandi,“ segir Sævar Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BLÍ. 

Starfsemi landsliðsnefndar BLÍ hefur aukist mikið undanfarin misseri. Í sumar var ákveðið að senda unglingalið sambandsins til keppni í EM unglinga, samtals 4 landslið. Auk þeirra eru 4 landslið unglinga að taka þátt í NEVZA keppnum (Svæðiskeppni Norður Evrópu).

Íslenska karlalandsliðið í blaki.
Íslenska karlalandsliðið í blaki. Ljósmynd/Blaksamband Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert