Hrafnhildur fyrst á HM í Kanada

Hrafnhildur Lúthersdóttir keppir í 50 metra bringusundi í dag.
Hrafnhildur Lúthersdóttir keppir í 50 metra bringusundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland á átta keppendur á HM í sundi í 25 metra laug sem hefst í Windsor í Kanada í dag. Fimm Íslendingar synda í dag.

Hrafnhildur Lúthersdóttir er fyrst en hún keppir í 50 metra bringusundi í dag. Hrafnhildur syndir um kl. 16 að íslenskum tíma í undanrásum 50 metra bringusunds. Ef allt gengur að óskum keppir hún svo í undanúrslitum í greininni í kvöld, eftir kl. 23.30. Úrslitin í greininni eru annað kvöld.

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson keppir í 100 metra baksundi í dag, líkt og Kristinn Þórarinsson. Kristinn keppir einnig í 200 metra fjórsundi. Viktor Vilbergsson keppir svo í 100 metra bringusundi.

Eygló Ósk Gústafsdóttir, íþróttamaður ársins 2015, syndir svo í undanrásum 100 metra baksunds um kl. 17.30. Undanúrslitin eru í kvöld og úrslitin annað kvöld.

Keppni á HM er með hefðbundnu sniði en undanrásir hefjast kl. 14.30 að íslenskum tíma og úrslitakvöldin kl. 23.30 að íslenskum tíma. Mótinu lýkur á sunnudagskvöld.

Aron Örn Stefánsson, Bryndís Rún Hansen og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir eru einnig á meðal keppenda á mótinu en synda ekki í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert