„Þetta var mjög sætt“

Sonja Sigurðardóttir með verðlaun sín í gær. Hjá henni er …
Sonja Sigurðardóttir með verðlaun sín í gær. Hjá henni er Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF. mbl.is/Ófeigur

Sonja Sigurðardóttir var í gær valin Íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra í þriðja sinn á ferlinum. 

„Þetta er mjög sætt,“ sagði Sonja þegar mbl.is ræddi við hana en nokkuð er um liðið frá því hún fékk nafnbótina síðast. Hún var einnig valin 2008 og 2009. „Allt er þegar þrennt er,“ bætti Sonja við. 

Um var að ræða stórt ár hjá henni enda keppti hún bæði á Paralympics í Ríó en einnig á Evrópumeistaramótinu í Portúgal. „Fyrir utan Paralympics þá var EM eftirminnilegt en þar hafnaði ég í 4. sæti í 50 metra baksundi.“

50 metra baksund er aðalgrein Sonju og hún komst í úrslit í þeirri grein í Ríó og setti þar Íslandsmet. 

Sonja segir erfitt að segja til um hvort 2016 sé hennar besta ár á ferlinum þar sem hún er með taugasjúkdóm og fötlun hennar hefur aukist. Samanburðurinn sé því erfiður. Hún segist halda ótrauð áfram á næsta ári en 2017 fer fram heimsmeistaramót í Mexíkó sem verður að líkindum hápunktur ársins hjá Sonju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert