HK vann tvöfalt í Fagralundi

Hjördís Eiríksdóttir slær á móti hávörn Þróttara í dag.
Hjördís Eiríksdóttir slær á móti hávörn Þróttara í dag. Ljósmynd/A&R photos

Það var blakveisla í Fagralundi í dag þegar HK og Þróttur Neskaupstað áttust við bæði í karla- og kvennaflokki í Mizuno-deildunum í blaki.

Kvennamegin voru HK-konur ósigraðar í deildinni fyrir leikinn og engin breyting varð þar á í dag. HK vann fyrstu hrinu 25:19. Í annarri hrinu var jafnt á flestum tölum og liðin skiptust á að hafa yfirhöndina. Hrinan var á köflum æsispennandi og mikið um góðar varnir, þó fór svo að HK náði að klára hrinuna eftir upphækkun 26:24.

Þróttarstelpur voru slegnar út af laginu og HK náði góðu forskoti í upphafi þriðju hrinu. Um miðbik hrinunnar náði Þróttur að saxa verulega á forskotið en þá gaf HK í og endaði hrinan með sigri HK 25:20 og sigruðu þær leikinn 3:0.

Stigahæstar í liði HK voru Fríða Sigurðardóttir með 15 stig og þær Laufey Björk Sigmundsdóttir og Elísabet Einarsdóttir með 11 stig hvor. Hjá Þrótti var Ana Maria Vidal Bouza með 14 stig og María Rún Karlsdóttir með 11 stig.

Í viðureign karlaliðanna var fyrir fram búist við spennandi leik en varð ljóst í fyrstu hrinu hvert stefndi. Í lið Þróttar vantaði lykilmenn og því unnu heimamenn í HK leikinn nokkuð örugglega, 25:6, 25:11 og 25:13. Gestirnir áttu þó góða spretti inn á milli og sýndu góða takta.

Stigahæstir í liði HK voru Theodór Óskar Þorvaldsson og Bergur Einar Dagbjartsson. Í liði Þróttar voru Hlöðver Hlöðversson og Birkir Freyr Elvarsson atkvæðamestir.

Liðin mætast að nýju á morgun í Fagralundi og hefst kvennaleikurinn kl. 12 og viðuregin karlaliðanna kl. 14. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert