NM í snóker hafið í Faxafeni

Norðurlandamótið í snóker fer nú fram á Íslandi.
Norðurlandamótið í snóker fer nú fram á Íslandi. Ljósmynd/skjáskot

Norðurlandamótið í snóker hófst í dag á Billiardbarnum í Faxafeni en það stendur yfir fram á laugardag. Alls taka 40 keppendur þátt.

Spilað verður í átta fimm manna riðlum og fara tveir keppendur upp úr hverjum riðli í 16 manna útsláttarkeppni. Riðlakeppnin hófst kl. 10 í morgun og verður leikið í henni í dag og á morgun. Útsláttarkeppnin er svo á föstudag og laugardag en áætlað er að úrslitaleikurinn verði spilaður kl. 14.

Þetta er í sjöunda sinn sem Norðurlandamótið í snóker er haldið en fyrsta mótið fór fram í Árósum í Danmörku árið 2000, þar sem Jóhannes B. Jóhannesson vann heimamanninn Allan Norvark í úrslitaleiknum. Jóhannes varði titilinn ári síðar og vann hann í þriðja sinn árið 2003. Norðurlandamótið var svo ekki haldið í heil 12 ár eða þar til að það fór fram í Noregi árið 2015, þar sem Jóhannes komst enn á ný í úrslit en tapaði 4:3 fyrir Rune Kampe frá Danmörku. Í fyrra komst Kampe aftur í úrslit en tapaði fyrir 19 ára Svía, Benjamin McCabe.

Á meðal keppenda á mótinu í ár er Kristján Helgason, margfaldur Íslandsmeistari sem verið hefur atvinnumaður og keppt á stórmótum, og eru vonir bundnar við að hann komist í úrslitaleikinn.

Hægt er að fylgjast með mótinu á Youtube.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert