Afturelding og KA unnu örugglega

Frá leik KA og Þróttar/Fylkis í KA-heimilinu í gærkvöld.
Frá leik KA og Þróttar/Fylkis í KA-heimilinu í gærkvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Afturelding vann Völsung 3:0 í Mizuno-deild kvenna í blaki að Varmá í gærkvöld og á Akureyri vann KA sigur á Þrótti R/Fylki, 3:0, í Mizuno-deild karla.

Leikur Aftureldingar og Völsungs var jafn lengi vel í fyrstu hrinu en í stöðunni 19:19 sigldi Afurelding fram úr og vann hrinuna að lokum 25:20. Í annarri hrinu var sama upp á teningnum en um miðja hrinu náði Afturelding yfirhöndinni og vann hrinuna 25:18. Í þriðju hrinu var leikur Aftureldingar sterkari og liðið fækkaði mistökum sínum og fór með sigur í hrinunni 25:16 og vann leikinn 3:0.

Með sigri tyllti Afturelding sér á toppinn í Mizuno-deild kvenna með 37 stig, jafnmörg stig og Þróttur Neskaupstað en hefur leikið tveimur leikjum minna. Í þriðja sæti er HK með 31 stig eftir 11 leiki. Það er því útlit fyrir harða keppni um deildarmeistaratitilinn á milli þessara þriggja liða.

Stigahæstar hjá Aftureldingu voru Kate Yeazel með 15 stig og Fjóla Rut Svavarsdóttir með 11 stig. Hjá Völsungi voru stigahæstar Sladjana Smiljanic og Michelle Traini með 6 stig hvor.

Karlalið KA vann afar sannfærandi sigur á liði Þróttar R. og Fylkis. KA vann fyrstu hrinu með yfirburðum, 25:5. Reykvíkingar veittu aðeins meiri mótspyrnu í næstum tveimur hrinum en KA vann þær 25:15 og 25:13.

Stigahæstir Þróttara voru Martin Marinov með 6 stig og Sergej Diatlovic með 5 stig. Stigahæstur í Liði KA var Alexander Arnar Þórisson með 11 stig og Ævarr Freyr Birgisson var með 10 stig. Þessi lið mætast aftur í dag klukkan 14:00 í KA heimilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert