Íslandsmet hjá Ásdísi í Sviss

Ásdís Hjálmsdóttir bætti eigið Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss í dag.
Ásdís Hjálmsdóttir bætti eigið Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss í dag.

Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni sem árum saman hefur verið einn fremsti spjótkastari í Evrópu bætti í dag eigið Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss á meistaramóti Sviss í frjálsíþróttum sem haldið var í Magglingen.

Ásdís varpaði kúlunni lengst 15,96 metra og bætti eigið Íslandsmet um einn sentímetra. Fyrra met setti Ásdís í Kaplakrika 13. september á síðasta ári. Hún var nokkuð frá lágmarksárangri til þátttöku á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Belgrad eftir hálfan mánuði. Til þess að öðlast keppnisrétt á EM þarf að varpa kúlunni að minnsta kosti 16,30 metra.

Á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands segir að Ásdís ætli ekki að gera aðra atlögu að EM lágmarkinu í kúluvarpi. Næst á dagskrá sé þátttaka í Vetrarkastmóti Frjálsíþróttasambands Evrópu sem fram fer á Kanaríeyjum 11. og 12. mars. Þar mun Ásdís væntanlega keppa í sinni eftirlætisgrein, spjótkasti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert