Mun ekki snúa aftur til Barcelona

Sæti Luis Enrique í þjálfarastól Barcelona er ansi heitt þessa dagana eftir 4:0-tap liðsins gegn PSG í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vikunni. Pep Guardiola var spurður að því á blaðamannafundi í gær hvort hann myndi íhuga það að taka við stjórnartaumunum hjá Barcelona á nýjan leik, en hann sagðist vera afhuga því. 

Enrique sem hefur tvívegis stýrt Barcelona til sigurs í spænsku deildinni og einu sinni leitt liðið til sigurs í Meistaradeild Evrópu verður samningslaus í sumar og vangaveltur eru uppi um framtíð Enrique hjá Barcelona. 

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, útilokaði þann möguleika að hann myndi einn daginn endurnýja kynni sín við Barcelona sem þjálfari félagsins. Guardiola, sem vann 14 titla á þeim fjórum árum sem hann stýrði Barcelona, telur að fyrrum lærisveinar hans hafi enn á að skipa besta liði heims þrátt fyrir tapið gegn PSG í vikunni.  

„Ef það er eitthvert lið sem getur snúið við svona slæmri stöðu er það Barcelona, en ég tel að það sé nægilegur andlegur styrkur til þess að bregðast við svona mótlæti. Ég tel liðið enn besta knattspyrnulið heims þrátt fyrir þennan ósigur,“ sagði Guardiola í samtali við blaðamenn.

„Ég mun aldrei snúa aftur til Barcelona sem þjálfari. Mínum tíma hjá Barcelona er lokið og það er óþarfi að velta því fyrir sér hvort ég muni taka við stjórnartaumunum þar í framtíðinni,“ sagði Guardiola, spurður um hvort hugur hans flögri til síns fyrrum félags, Barcelona.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert