Bráðungir Íslandsmeistarar

Tiana Ósk Whitworth fagnar í endamarkinu.
Tiana Ósk Whitworth fagnar í endamarkinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrar bráðungar og efnilegar stelpur lönduðu Íslandsmeistaratitli á Meistaramótinu í frjálsum íþróttum í Laugardalshöll um helgina. Þeirra yngst er hin 14 ára gamla Birna Kristín Kristjánsdóttir sem vann 60 metra hlaup á 7,88 sekúndum, eftir hörkukeppni. Andrea Torfadóttir úr FH kom í mark á sama tíma en Birna var sjónarmun á undan.

Á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands er bent á að sennilega sé Birna, sem er Bliki, næstyngst til að vinna Íslandsmeistaratitil í spretthlaupum innanhúss. Sú eina sem var yngri er móðir Birnu, Geirlaug Geirlaugsdóttir, sem var á 14. ári þegar hún vann sinn fyrsta titil árið 1981.

Erna Sóley Gunnarsdóttir úr Aftureldingu setti nýtt met í flokki 17 ára og yngri í kúluvarpi með 4 kg kúlu, þegar hún kastaði 13,69 metra og varð Íslandsmeistari. Erna Sóley bætti met Helgu Margrétar Þorsteinsdóttur frá árinu 2008, um 24 sentímetra.

Tiana Ósk Whitworth, 16 ára úr ÍR, vann 200 metra hlaup á 24,97 sekúndum. Vilhelmína Þór Óskarsdóttir úr Fjölni, 18 ára, varð í 2. sæti en vann 400 metra hlaupið á 58,61 sekúndu. Helga Margrét Haraldsdóttir, 15 ára úr ÍR, vann þrístökk með 11,46 metra stökki. Dóra Kristný Gunnarsdóttir úr Aftureldingu varð í 2. sæti með 10,93 metra stökk.

Af öðrum úrslitum má nefna að ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason úr ÍR, kringlukastari, vann kúluvarp karla með 16,98 metra kasti. Ívar Kristinn Jasonarson úr ÍR vann 200 metra hlaup (22,08 sek.) og 400 metra hlaup (48,79 sek.) auk þess að vera í boðhlaupssveit ÍR sem vann 4x200 metra boðhlaup.

Bjartmar Örnuson úr ÍBA vann 800 metra hlaup (1:56,16 mín.) og 1.500 metra hlaup (4:00,75 mín.), og Andrea Kolbeinsdóttir úr ÍR vann 1.500 (4:45,98 mín.) og 3.000 metra hlaup kvenna (10:18,22 mín.) María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH vann 60 metra grindahlaup (8,97 sek.) og langstökk (5,80 m).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert