Þuríður sló öll Íslandsmetin

Þuríður Erla Helgadóttir.
Þuríður Erla Helgadóttir. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands

Andri Gunnarsson úr Lyftingafélagi Garðabæjar og Þuríður Erla Helgadóttir úr Ármanni náðu bestum árangri keppenda á Íslandsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum sem fram fór í Mosfellsbæ í gær, sunnudaginn 19. febrúar, í umsjón Lyftingafélags Mosfellsbæjar.

Þuríður, sem yfirleitt keppir í -58 kg flokki kvenna, vigtaðist inn 58,80 kg og keppti því í -63 kg flokki kvenna. Þar gerði hún sér lítið fyrir og sló öll Íslandsmetin með því að lyfta 84 kg í snörun í þriðju tilraun, sem var 1 kg bæting á meti Bjarkar Óðinsdóttur (KFA) sett á Norðurlandameistaramótinu síðastliðinn október.

Í jafnhendingu lyfti Þuríður síðan 106 kg í mikilli baráttulyftu í annarri tilraun þar sem hún sló met Hjördísar Óskar Óskarsdóttur (FH) um 1 kg, sett árið 2015. Samanlagða metið átti Þuríður hins vegar sjálf frá árinu 2015. Þuríður var nálægt því að lyfta síðan 107 kg í þriðju tilraun en kláraði ekki lyftuna.

Andri Gunnarsson keppir í yfirþungavigt, +105 kg flokki, og bætti sitt eigið Íslandsmet í snörun um 3 kg þegar hann lyfti 160 kg. Einnig bætti hann jafnhendingarmetið um 4 kg þegar hann lyfti 190 kg.

Með þessum árangri staðfestir Andri að hann er einn allra besti yfirþungavigtarmaður Norðurlandanna, en bæði finnska meistaramótið og norska meistaramótið fóru fram núna um helgina. Þar varð Teemu Roininen finnskur meistari með 149 kg í snörun og 190 kg í jafnhendingu, sem sýnir hvar Andri stendur.

Ekki féllu önnur Íslandsmet á mótinu en Einar Ingi Jónsson (LFR) reyndi tvisvar við nýtt met í jafnhendingu í -77 kg flokki, 147 kg, og Goði Ómarsson (LFG) reyndi við nýtt met í jafnhendingu í -94 kg flokki karla, 159 kg, en hvorugur náði að klára þær lyftur.

Eftirfarandi aðilar urðu Íslandsmeistarar um helgina:

-58 kg flokkur kvenna      Sigríður Jónsdóttir – LFK

-63 kg flokkur kvenna      Þuríður Erla Helgadóttir  Ármann

-69 kg flokkur kvenna      Lilja Lind Helgadóttir  LFG

-75 kg flokkur kvenna      Soffía Bergsdóttir – Ármann

-90 kg flokkur kvenna      Sesselja Sigurðardóttir – KFA

-69 kg flokkur karla           Brynjar Ari Magnússon – LFH

-77 kg flokkur karla           Einar Ingi Jónsson – LFR

-85 kg flokkur karla           Daníel Róbertsson – Ármann

-94 kg flokkur karla           Goði Ómarsson – LFG

-105 kg flokkur karla         Ingólfur Þór Ævarsson – KFA

+105 kg flokkur karla        Andri Gunnarsson – LFG

Heildarúrslit má nálgast á heimasíðu LSÍ (www.lsi.is).

Andri Gunnarsson.
Andri Gunnarsson. Ljósmynd/LSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert