Yrði ömurlegt að missa af EM

Arna Stefanía Guðmundsdóttir.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arna Stefanía Guðmundsdóttir, hlaupakona úr FH og önnur tveggja Íslendinga með þátttökurétt á EM innanhúss í frjálsum íþróttum, er í kapphlaupi við tímann um að jafna sig af meiðslum í læri fyrir mótið. EM hefst í Belgrad 3. mars.

„Ég er tæp í lærinu. Þetta er smávægileg tognun og ég verð að taka stöðuna í vikunni og ákveða mig varðandi EM í lok vikunnar. Ég er búin að vera í sjúkraþjálfun síðustu vikuna og held því áfram og svo sjáum við hvernig æfingar ganga,“ sagði Arna, sem meiddist þegar hún varð Norðurlandameistari í 400 metra hlaupi í Finnlandi fyrir rúmri viku:

„Þetta var ekki alvarlegra en svo að ég náði að klára hlaupið, en það eru óþægindi af þessu og óþarfi að hætta á að þetta verði mikið verra,“ sagði Arna.

„Auðvitað yrði ömurlegt að missa af EM en ef ég lít á björtu hliðarnar þá er mín aðalgrein í sumar 400 metra grindahlaupið en ég mun gera allt sem ég get í þessari viku til að komast í lag,“ sagði Arna.

„Maður fer auðvitað ekki meiddur út. Ég hef fulla trú á að ég geti unnið með þetta en ég verð líka að vera skynsöm og ef ég er meidd þá er það bara þannig,“ bætti hún við. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert