Arna Stefanía keppir ekki á EM

Arna Stefanía Guðmundsdóttir.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Arna Stefanía Guðmundsdóttir, hlaupakona úr FH, hefur tekið ákvörðun um að taka ekki þátt í Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum innanhúss sem fram fer í Belgrad um aðra helgi. Ástæðan fyrir ákvörðun Örnu Stefaníu eru meiðsli í læri sem hrjáð hafa hana síðustu vikur. 

Arna Stefanía staðfesti þetta í samtali við mbl.is fyrir stundu. Hún hafði öðlast þátttökurétt í 400 m hlaupi á Evrópumeistaramótinu.

Arna Stefanía segir ákvörðunina hafa verið erfiða en óhjákvæmilega. „Það hefur ekki tilgang að fara á stórmót og geta ekki hlaupið,“ sagði Arna Stefanía sem varð Norðurlandameistari í 400 m hlaupi fyrir nærri hálfum mánuði. 

Þar með er útlit fyrir að Aníta Hinriksdóttir verði eini íslenski keppandinn á mótinu en hún hefur öðlast þátttökurétt í 800 m hlaupi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert