„Ég er alveg í skýjunum“

Elsa Guðrún Jónsdóttir.
Elsa Guðrún Jónsdóttir. Ljósmynd/Einar Þór Bjarnason

„Ég er bara að reyna að njóta þess að hafa náð þessum árangri,“ sagði Elsa Guðrún Jónsdóttir í samtali við mbl.is, eftir að hafa unnið undankeppnina í 5 km skíðagöngu kvenna með hefðbundinni aðferð á heimsmeistaramótinu í skíðagöngu sem fram fer í Lahti í Finnlandi.

Elsa Guðrún kom í mark á tímanum 15:23,9 mínútum, og var rúmum 20 sekúndum á undan næsta keppanda. Í undankeppninni komast að hámarki 10 bestu áfram af hvoru kyni og komist keppandi áfram fær hann þátttökurétt í öllum göngum í lengri vegalengdum. Það hefur Elsa nú afrekað.

„Þetta var algjörlega framar vonum. Þegar ég fékk boð um að vera með þá var ég bara glöð með það og var ekkert viss um að komast áfram úr undankeppninni. Ég hef ekki verið að æfa nóg vegna snjó- og tímaleysis. En ég var með 8. besta árangurinn inn í keppnina, sem setti smá pressu á mig og ég sá að ég ætti möguleika að komast áfram,“ sagði Elsa.

„Ég var bara að vonast til að vera meðal efstu tíu. Það var aðalmarkmiðið, en auðvitað var ég búin að hugsa að það væri gaman að komast á pall. En ég var ekki búin að hugsa svona langt, og það er alveg geggjað að ná þessu. Ég er alveg í skýjunum með þetta,“ sagði Elsa.

Elsa Guðrún Jónsdóttir.
Elsa Guðrún Jónsdóttir. mbl.is/Golli

Erfiðasta braut sem ég hef keppt í

Elsa Guðrún segir að aðstæður í Lahiti séu með allra besta móti.

„Þær eru bara geggjaðar. Skíðasambandið heldur mjög vel utan um þetta, við erum með geggjuð skíði og sérstakan smurningsmann. Brautin er svo mjög krefjandi, sennilega sú erfiðasta sem ég hef keppt í, en stæðið er ótrúlega flott og skemmtileg braut þó hún sé erfið,“ sagði Elsa, sem sagði brautina vera mjög bratta.

„Það er minn styrkleiki, að vera í brekkunum. Þetta hentaði mér því mjög vel,“ sagði Elsa. Hún keppir strax á morgun í sprettgöngu, en er mest að horfa á 10 km göngu með hefðbundinni aðferð sem fram fer næsta þriðjudag.

„Sprettgangan er ekki alveg mínar sterkasta hlið, svo ég er bara glöð að fá að vera með og keppa við bestu konur heims. En ég er mest spennt fyrir 10 km göngu, ég er sterkur í 5 og 10 km göngunum svo ég hlakka mest til hennar,“ sagði Elsa, sem býst til að mynda ekki við því að keppa í 30 km göngu þar sem hún hafi ekki náð að æfa nægilega vel til þess.

Elsa Guðrún Jónsdóttir hér fyrir miðju eftir keppnina í dag.
Elsa Guðrún Jónsdóttir hér fyrir miðju eftir keppnina í dag. Ljósmynd/Skíðasamband Íslands

Fjölskyldan fylgdist saman með keppninni

Elsa Guðrún er frá Ólafsfirði og segir það vitanlega vera mjög óvenjulegt hversu snjólítill veturinn hafi verið.

„Ég held ég hafi komist svona 15 sinnum á skíði heima. Ég fór á mót í Noregi í desember, og keppti fyrir sunnan líka. En annars hef ég ekki náð að fara nógu mikið á skíði. Þetta er mjög óvenjulegt, og miðað við síðasta vetur er þetta bókstaflega svart og hvítt,“ sagði Elsa.

Hún segir að vel sé fylgst með henni að heiman og að skilaboðunum og hamingjuóskum hafi rignt yfir hana eftir keppnina í dag.

„Ég er að reyna að komast í gegnum þetta. Fjölskyldan var öll að horfa þetta saman heima hjá frænda mínum, og ég veit að menntaskólinn heima var að sýna þetta. Svo þetta er ótrúlega gaman,“ sagði Elsa Guðrún Jónsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert