Orðaskipti á sundmóti komu tröllasögum af stað

Frá Íslandsmótinu í sundi, sem tengist fréttinni ekki með beinum …
Frá Íslandsmótinu í sundi, sem tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það fóru á kreik ýmsar tröllasögur sem voru farnar að hafa truflandi áhrif,“ segir Hörður J. Oddfríðarson, formaður Sundsambands Íslands, í samtali við mbl.is þegar blaðamaður spurði hann út í heldur óræðna yfirlýsingu á heimasíðu sambandsins sem birtist í gær.

Þar segir frá máli sem kom upp á Gullmóti KR í sundi á dögunum, og í tilkynningunni segir að ekki sé í hyggju að dæma einstaklinga eða einstök félög í keppnisbann eða beita annars konar aðgerðum. Ekki er nánar greint frá málsatvikum, en hvað var eiginlega í gangi?

„Það sem gerðist er að búnaður bilaði, og yfirdómarinn brást við því á þann hátt sem hann gat. Einhverjir voru ósáttir við þau viðbrögð og töldu þau hafa átt að vera öðruvísi. Auðvitað er hægt að vera vitur eftir á og það er um að gera að skoða málin,“ segir Hörður, en það sem gerðist næst virðist hafa náð að vinda upp á sig.

Orðrómur kominn um alla hreyfinguna

„Það urðu einhver orðaskipti þarna á milli dómara og foreldris, en við erum vön því að afgreiða málin innan hreyfingarinnar. Þarna var málið hins vegar farið í einhvern farveg sem var mjög óvenjulegur, orðrómur sem var ekki bara innan ákveðins hóps heldur kominn um alla sundhreyfinguna,“ segir Hörður og vísar þá til þess sem stendur í tilkynningunni um að orðrómur um keppnisbann sé úr lausu lofti gripinn.

„Sagt var að það væru einhverjar stórkallalegar aðgerðir í gangi, sem er ekki. Það fóru á kreik ýmsar tröllasögur innan sundhreyfingarinnar um það að búið væri að setja ákveðið félag í keppnisbann og jafnvel búið að reka einhverja úr hreyfingunni. Ég er ekki einu sinni klár á því hver átti að hafa fengið keppnisbann og hvern átti að reka, sögurnar voru svo misvísandi. En það var eitthvað sem hafði aldrei komið til,“ segir Hörður.

Var þá tilkynningin í rauninni aðeins birt til þess að slökkva elda innan hreyfingarinnar?

„Í raun og veru, bara að segja hvað er í gangi. Það kom til okkar ábending, við brugðumst við henni eins og við erum vön og þannig leystum við það mál. Við erum ekki vön því að setja það á heimasíðuna ef við fáum það sem ég vil kalla smámál inn á borð til okkar, en það varð að gera í þetta skiptið,“ segir Hörður J. Oddfríðarson, formaður Sundsambands Íslands.

Hörður J. Oddfríðarson.
Hörður J. Oddfríðarson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert