Ætlar að rota Gunnar og senda skilaboð

Alan Jouban mætir Gunnari Nelson í London í mars.
Alan Jouban mætir Gunnari Nelson í London í mars. APS

Gunnar Nelson berst við Bandaríkjamanninn Alan Jouban á UFC Fig­ht Nig­ht 107-kvöld­inu sem fram fer í London 18. mars næst­kom­andi. Mbl.is heyrði í Jouban og spurði hann út í bardagann við Gunnar. Jouban segir bardagann vera þann stærsta á ferlinum hjá sér. 

Jouban er ekki á meðal 15 efstu í veltivigtinni í UFC en Gunnar er í 9. sæti listans. Bandaríkjamaðurinn segir það henta sér ágætlega að Gunna sé spáð sigri. 

Vildi fá stórt nafn og segir Gunnar svo sannarlega vera það

„Það er sama hvern þú spyrð, næsti bardagi er alltaf sá stærsti. Gunnar er allt sem ég vildi fyrir andstæðing og ég er ánægður að fá þetta tækifæri og þetta er tækifæri sem mér finnst ég eiga skilið. Ég vildi fá stórt nafn og Gunnar er það svo sannarlega. Ég vildi fá andstæðing sem er á topp 15 og Gunnar er á topp 10, það má því segja að ég hafi fengið enn stærri bardaga en ég átti von á. Ég vildi líka fá aðalbardaga kvöldsins og ég er búinn að leggja hart að mér til að fá svona bardaga.“

„Það hentar mér ágætlega að Gunnari sé spáð sigri, þetta er ekki í fyrsta skipti sem andstæðingnum er spáð sigri gegn mér. Það ætti að setja meiri pressu á Gunnar. Ég er ekki á topp 15 en Gunnar veit hver ég er og hann veit að ég er búinn að vinna fimm af síðustu sex bardögum mínum, og að ég vann alla mína bardaga á síðasta ári. Ég er mjög hættulegur andstæðingur, sérstaklega miðað við að ég sé ekki á topp 15.“

Jouban barðist þrisvar á síðasta ári og vann alla sína bardaga. Gunnar barðist aftur á móti aðeins einu sinni og var að glíma við meiðsli. Býst Jouban við að það sé ryð í Gunna? 

„Það gæti verið en ég býst ekki við því. Gunnar er maður sem hættir aldrei að æfa. Ég veit hann var meiddur en þrátt fyrir það býst ég ekki við að hann verði ryðgaður.“

Ætlar ekki bara að vinna Gunna heldur rota hann og senda skilaboð

Gunnar er sérstaklega góður í að berjast á gólfinu og viðurkennir Jouban að hann vilji halda okkar manni standandi og boxa við hann. Hann bætir svo við að hann sé sannfærður um að hann geti ekki bara unnið Gunna, heldur rotað hann. 

„Ég er við öllu búinn. Hann er bestur þegar hann nær að koma fólki í erfiða stöðu á gólfinu en ég er betri þegar við erum standandi. Ég vil halda honum standandi en ef hann kemur mér í gólfið þá hef ég ekki of miklar áhyggjur. Ég er í virkilega góðri æfingu og ég byrjaði að undirbúa bardagann um leið og ég fékk að vita að hann væri næsti andstæðingur. Ég og þjálfaranir mínir erum að leggja hart að okkur til að ég verði tilbúinn í allt sem Gunnar mun reyna.“

„Ég hef áður barist við menn sem hafa aldrei verið rotaðir á ferlinum, þangað til þeir mættu mér. Síðustu tveir bardagar mínir voru á móti ósigruðum andstæðingum og þeir höfðu aldrei verið slegnir niður þangað til þeir mættu mér. Ég vann þá báða og sló þá báða þrisvar í gólfið. Gunnar er mjög góður og það verður erfitt að berjast við hann en ég er góður að finna veikleika hjá andstæðingunum. Það er enginn í veltivigtinni sem kýlir jafn vel og ég. Ég ætla ekki bara að vinna Gunna, ég ætla að rota hann og senda skilaboð til allra í þyngdarflokkum,“ segir Jouban, með sjálfstraustið í lagi. 

Veit ekki neitt um Ísland

Síðasti bardagi Gunnars var gegn Albert Tumenov. Gunnar vann þann bardaga örugglega en Jouban tapaði fyrir sama andstæðingi í september 2015. 

„Ég er ekki bara að berjast við mann sem er á topp 10, ég er líka að eyða út tapinu gegn Albert Tumenov í leiðinni. Það verður auðvelt að gleyma því með sigri á Gunnari. Ég átti ekki minn besta dag gegn Tumenov á meðan Tumenov átti ekki góðan dag gegn Gunna.“

Hvað veit Jouban um heimalandið hans Gunna? 

„Ég veit ekkert um Ísland! Það hljómar eins og það sé kalt þar, en ég væri mjög mikið til í að heimsækja landið. Ég hef ekki einu sinni komið nálægt Íslandi,“ sagði Jouban hlæjandi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert