Lagt til að skipta sérsamböndum í flokka

Andri Stefánsson, Þórdís Gísladóttir og Stefán Konráðsson á blaðamannafundinum í …
Andri Stefánsson, Þórdís Gísladóttir og Stefán Konráðsson á blaðamannafundinum í dag. Friðrik Einarsson átti einnig sæti í vinnuhópnum. mbl.is/Kris

Í skýrslu vinnuhóps um endurskoðun á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ er gerð tilraun til að skilgreina hvað telst til íþróttaafreka á alþjóðavísu. Stærstu tíðindin í skýrslunni eru líklega þau að vinnuhópurinn leggur til flokkun á sérsamböndum ÍSÍ eftir stöðu Íslands í greininni og stöðu viðkomandi íþróttagreinar í heiminum. 

Skýrslan

Lagt er til að skipta sérsamböndum í þrjá flokka sem kallaðir eru í skýrslunni: Afrekssambönd, Alþjóðleg sambönd og Þróunarsérsambönd en alls eru sérsambönd ÍSÍ þrjátíu og tvö talsins. Er áhersla lögð á lengri samninga en áður og lagt til að gera megi samninga til fjögurra ára til dæmis vegna ákveðinna verkefna eins og Ólympíuleika. 

Vinnuhópurinn flokkar eftirfarandi sérsambönd sem Afrekssambönd að svo stöddu: Frjálsíþróttasambandið, Fimleikasambandið, Golfsambandið, Handknattleikssambandið, Körfuknattleikssambandið, Kraftlyftingasambandið, Knattspyrnusambandið og Sundsambandið. 

Um Afrekssambönd segir meðal annars: „Sérsambönd þar sem afreksstarfið felur í sér reglulega þátttöku á hæsta stigi í viðkomandi íþróttagrein, með frábærum árangri, s.s. verðlaunasæti eða með því að komast í úrslit. Í þessu sambandi getur sjóðsstjórn metið stærð íþróttagreinar á heimsvísu.“ 

Vinnuhópurinn flokkar eftirfarandi sérsambönd sem Alþjóðleg sambönd að svo stöddu: Blaksambandið, Badmintonsambandið, Danssambandið, Íþróttasamband fatlaðra, Íshokkísambandið, Júdósambandið, Karatesambandið, Keilusambandið, Landssamband hestamanna, Skíðasambandið, Skylmingasambandið og Skotíþróttasambandið. 

Um alþjóðleg sambönd segir meðal annars: „Sérsambönd þar sem afreksstarfið felur í sér reglulega alþjóðlega þátttöku á heimsvísu í viðkomandi íþróttagrein, þar sem einstaklingar eru að keppa um stig á heimslista og reyna að vinna sér þátttökurétt á HM/EM og/eða ÓL/PL.“

Vinnuhópurinn flokkar eftirfarandi sérsambönd sem Þróunarsérsambönd að svo stöddu: Akstursíþróttasambandið, Borðtennissambandið, Glímusambandið, Hnefaleikasambandið, Hjólreiðasambandið, Skautasambandið, Lyftingasambandið, Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambandið, Siglingasambandið, Taikvondósambandið, Tennissambandið og Þríþrautarsambandið. 

Um Þróunarsérsambönd segir meðal annars: „Hér er um að ræða þau sérsambönd sem ekki komast í flokk afrekssérsambanda eða alþjóðlegra sérsambanda, en taka þó þátt í alþjóðlegu landsliðsstarfi. Um er að ræða sérsambönd sem taka þátt í HM, EM eða NM og nýta þá kvóta sem þeir hafa vegna þessara móta, eða eru að keppa í forkeppnum eða neðstu stigum viðkomandi greina. Er þá oftast verið að nýta kvóta eða boðssæti fyrir landsliðsfólk eða Íslandsmeistara í viðkomandi grein. Fyrir hópíþróttir er um að ræða lið sem taka þátt í riðlakeppni, eða neðri deildum viðkomandi íþróttagreinar.“ 

Auk þess þurfa sérsamböndin að leggja fram skýrari afreksstefnu að mati hópsins. Í skýrslunni er mælt með því að Afrekssamböndin leggi fram afreksstefnu til átta ára og Alþjóðlegu samböndin til fjögurra ára en Þróunarsamböndin til tveggja ára. 

Í skýrslunni er miðað við að sérsamböndin í flokki Afrekssambanda fái um 45-70% af úthlutun hverju sinni: „Er það mat vinnuhópsins að æskilegt sé að um 45-70% af úthlutun sjóðsins fari til þeirra sambanda, en þó fari það eftir verkefnum og áherslum hverju sinni. Þau sérsambönd sem skipa sér í flokk Alþjóðlegra sérsambanda væru að hljóta um 35-45% af úthlutun sjóðsins, m.t.t. verkefna og áherslna hverju sinni. Loks væru um 10-15% að fara til þeirra sérsambanda sem væru skilgreind sem Þróunarsérsambönd. Þessi skipting getur breyst í samræmi við áherslur sjóðsins og raunhæft væri að þvert á þessa flokka væru skilgreindar ákveðnar áherslur sem styrktar væru samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar, s.s. þjónustuþættir eins og fagteymi, undirbúningur fyrir ólympísk verkefni og fleira sbr. skýrslu ÍSÍ frá 2015 um kostnað vegna Afreksíþróttastarfs.“

Stefán Konráðsson, formaður íþróttanefndar ríkisins og fyrrverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ, var formaður vinnuhópsins. Ásamt honum störfuðu í vinnuhópnum þau Andri Stefánsson, starfsmaður afrekssviðs ÍSÍ, Friðrik Einarsson, fyrrverandi formaður afreks- og ólympíusviðs ÍSÍ og fv. formaður Skíðasambands Íslands, og Þórdís Gísladóttir, doktor í íþróttafræði og ólympíufari. 

Vinnuhópurinn var skipaður í september 2016 af framkvæmdastjórn ÍSÍ til að gera tillögur um breytingar á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ. Hann getur því ekki annað en lagt til þá niðurstöðu sem finna má í skýrslunni en íþróttahreyfingarinnar er að taka ákvörðun. Til þess gæti þurft að fara í lagabreytingar enda víða komið við í skýrslunni en væntanlega tekur framkvæmdastjórn ÍSÍ skýrsluna fyrir áður en lengra er haldið. 

Mikil vinna liggur að baki skýrslunni en vinnuhópurinn fundaði með ýmsum aðilum innan íþróttahreyfingarinnar auk þess að kynna sér sérstaklega vinnulag vegna afreksmála í Danmörku, Noregi og Hollandi. Þá voru álitsgjafar fengnir sem ráðgefandi aðilar en margir þeirra hafa umtalsverða reynslu af afreksstarfi erlendis. Þessi aðilar eru: 

Bjarni Friðriksson, bronsverðlaunahafi á Ólympíuleikum, júdóþjálfari
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska/japanska karlalandsliðsins í handknattleik
Elísabet Gunnarsdóttir, knattspyrnuþjálfari í Svíþjóð
Erlingur Jóhannsson, prófessor við Háskóla Íslands og háskólann í Bergen, Noregi
Eyleifur Jóhannesson, sundþjálfari í Danmörku
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik
Guðmundur Þ. Harðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í sundi
Gunnar Páll Jóakimsson frjálsíþróttaþjálfari
Harpa Óskarsdóttir, yfirmaður unglingalandsl. í áhaldafiml. hjá sænska fimleikasambandinu
Heimir Hallgrímsson, landsliðsliðsþjálfari í knattspyrnu
Hrannar Hólm, körfuknattleiksþjálfari og fyrrverandi landsliðsþjálfari Danmerkur
Ingi Þór Einarsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, sundþjálfari
Kristinn Björnsson, skíðaþjálfari í Noregi
Úlfar Jónsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í golfi
Vésteinn Hafsteinsson, frjálsíþróttaþjálfari í Svíþjóð
Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert