Verður ein stór lendingakeppni

Agnes Suto verður í lykilhlutverki hjá Gerplu á morgun.
Agnes Suto verður í lykilhlutverki hjá Gerplu á morgun. mbl.is/Eva Björk

Landsliðskonan Agnes Suto, fyrirliði Gerplu, er sannfærð um að liðið geti orðið bikarmeistari í áhaldafimleikum á nýjan leik á morgun, eftir tveggja ára hlé. Keppni kvenna fer fram á morgun frá kl. 14 til 16 í húsakynnum Bjarkar í Hafnarfirði.

Gerpla hefur unnið titilinn í kvennaflokki 10 sinnum frá árinu 2000 og hefur Agnes tekið þátt í þremur þessara titla.

„Við erum með mjög flott lið núna. Við höfum æft núna svolítið lengi saman og markmiðið okkar á þessu ári var að vera vel undirbúin fyrir þetta keppnistímabil og þetta bikarmót. Það skiptir máli til að sýna að við séum enn þá með þetta, Gerplufólkið, og bæði þjálfarar og fimleikamenn hafa unnið vel saman að því,“ sagði Agnes á fréttamannafundi í Hafnarfirði í dag.

„Liðið er svolítið breytt núna. Það er mjög ungt og ég er elst, en við erum allar mjög vel undirbúnar og þetta verður bara ein stór lendingakeppni, því við erum svo jafnar í öllum félögunum. Þetta verður ekki eins létt og fyrir nokkrum árum þegar Gerpla sigraði,“ sagði Agnes, en búist er við harðri keppni á milli Ármanns, Bjarkar og Gerplu um bikarmeistaratitilinn. Ljóst er að mikið mun mæða á Agnesi og hún er undir það búin:

„Ég er í mjög fínu formi. Ég hef undirbúið mig mjög vel og er með reynsluna til að gera þetta vel. Þetta er níunda árið mitt í meistaraflokki og ég hlakka mikið til að keppa. Ég er vel undirbúin bæði í hausnum og líkamanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert