Hvaða þýðingu hefur sigur Gunnars?

Bardagakappinn Gunnar Nelson afgreiddi andstæðing í gólfinu í kvöld.
Bardagakappinn Gunnar Nelson afgreiddi andstæðing í gólfinu í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ljóst er að Gunnar Nelson er áfram á meðal tíu efstu á styrkleikalistanum í sínum flokki í UFC eftir sigurinn á Alan Jouban í Lundúnum í kvöld. 

Ekki liggur fyrir hversu mikið Gunnar hækkar við sigurinn í kvöld en fyrir bardagann var hann í 9. sæti á styrkleikalistanum. 

Andstæðingur Gunnars í kvöld var ekki á meðal fimmtán efstu fyrir bardagann og því spurning hversu mikið sigurinn gerir fyrir Gunnar sem unnið hefur sextán bardaga sem atvinnumaður og tapað aðeins tveimur. 

Sjónvarpsmennirnir sem lýstu bardaganum í útsendingunni hjá UFC Fight Pass veltu fyrir sér hvaða þýðingu sigur Gunnars myndi hafa. Þeir fullyrtu í það minnsta að Gunnar myndi hækka eitthvað á styrkleikalistanum en spáðu ekki fyrir um hversu mikið. Þeir bættu því við að næsta skref hlyti þá að vera að Gunnar mæti einhverjum þeirra sem eru hærra skrifaðir en hann á listanum og sögðust vera afar spenntir fyrir nokkrum möguleikum hvað það varðar. 

Gunnar ætti sem sagt að fá stóran bardaga síðar á árinu þar sem mikið er undir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert