Þrjú íslensk gull í Þýskalandi

Íslensku keppendurnir voru valdir lið mótsins.
Íslensku keppendurnir voru valdir lið mótsins. Ljósmynd/jsi

Íslenskir júdómenn kepptu í dag á Holstein Open í Þýskalandi og náðu þeir glæsilegum árangri. Þrjú gull, eitt silfur og tvenn bronsverðlaun var uppskeran. Þátttakendur komu frá rúmlega tíu þjóðum.

Gísli Vilborgarson reið á vaðið og innbyrti fyrsta gullið og var það í -73 kg flokknum. Þar var keppt í tveimur fjögurra mann riðlum og vann Gísli sinn riðil og var þar með kominn í undanúrslitin. Þar vann hann andstæðing sinn öruggt á ippon sem og úrslitaviðureignina.

Sveinbjörn Iura og Logi Haraldsson kepptu í -81 kg flokknum og var keppt í einum sex manna riðli, Sveinbjörn vann allar sínar (fimm) viðureignir þar með gullverðlaunin en Logi vann þrjár og endaði með bronsverðlaunin.

Í -90 kg flokknum, sem var fjölmennastur eða tólf manns, var keppt í tveimur sex manna riðlum. Þar vorum við með þrjá keppendur, þá Egil Blöndal, Ægi Valsson og Úlf Böðvarsson. Úlfur komst því miður ekki upp úr riðli en bæði Egill og Ægir sem kepptu hvor í sínum riðlinum urðu í öðru sæti síns riðils og komust þar með í undanúrslitin. Þar tapaði Ægir sinni viðureign og endaði í þriðja sæti en Egill vann hins vegar og komst í úrslitaviðureignina en tapaði þar og endaði því með silfrið.

Nú var bara einn keppandi eftir hjá okkur og var það Grímur Ívarsson sem keppti í -100 kg flokki þar sem keppendur voru sex. Grímur vann fyrstu fjórar viðureignir sínar og var þar með kominn í úrslit og þar lenti hann í vandræðum. Grímur var kominn undir og búið að skora tvívegis á hann waza-ari en Grímur náði ekki að svara fyrir sig og allt stefndi í að hann myndi tapa. Grímur gafst þó ekki upp og sótti stíft en andstæðingur hans var orðinn aðgerðarlítill og kominn í varnarham og það kom honum í koll því hann fékk dæmt á sig refsistig fyrir aðgerðarleysi og þegar hann fékk sitt þriðja refsistig var hann dæmdur úr leik og Grímur stóð uppi sem sigurvegari og voru þetta að sögn Jóns Þórs Þórarinssonar landsliðsþjálfara sanngjörn úrslit og mjög vel glímt hjá Grími og skynsamlega.

Ekki var öllu lokið hjá okkar mönnum því tilkynnt var að lið Íslands hefði verið valið lið mótsins og kom það þeim skemmtilega á óvart því þeir höfðu ekki haft hugmynd um að slíkt stæði til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert