„Þetta er bara byrjunin“

Vigdís Jónsdóttir þeytir sleggjunni.
Vigdís Jónsdóttir þeytir sleggjunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var fyrsta met ársins. Þetta er bara byrjunin,“ segir Vigdís Jónsdóttir úr FH sem stórbætti Íslandsmet sitt í sleggjukasti um helgina.

Vigdís, sem er 21 árs gömul, lagði fimleikabolinn á hilluna haustið 2012 og sneri sér að frjálsum íþróttum þar sem hún fann sig strax afskaplega vel í sleggjukasti. Hún kastaði 61,77 metra á Góumóti FH um helgina og hefur þar með bætt Íslandsmetið um rúmlega sjö og hálfan metra frá því að hún sló það fyrst snemma árs 2014.

„Ég er búin að vera að horfa til 60 metranna síðan haustið 2015,“ segir Vigdís, sem fyrir mótið um helgina hafði lengst kastað 58,82 metra.

„Síðasta sumar var mjög stöðugt hjá mér, og þó að ég hafi bara bætt mig um 20-30 sentimetra þá kastaði ég mun oftar löng köst en áður. Við biðum svo í rauninni bara eftir því að opna þetta sumar á 62 metra kasti, sem tókst næstum því í þessu ógeðslega veðri,“ segir Vigdís, sem átti annað kast yfir 60 metra um helgina áður en veðrið varð of slæmt:

„Þetta var allt í lagi í fyrstu þremur köstunum, bara smáslydda. Svo kom hins vegar nánast stórhríð með stærstu snjókornum sem ég hef séð. Seinni þrjú köstin voru því af verri endanum og ég flaug eiginlega bara á hausinn í síðustu tveimur köstunum.“

Sjá allt viðtalið við Vigdísi í íþróttablaði Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert