Hrafnhildur vill í stjórn Sundsambandsins

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hrafnhildur Lúthersdóttir, ein fremsta sundkona Íslands, hefur boðið sig fram til stjórnar Sundsambands Íslands á 62. sundþingi sambandsins sem fram fer á föstudag.

Níu af ellefu stjórnar- og varastjórnarmönnum munu ganga úr stjórn og sjö þeirra gefa ekki kost á sér til endurkjörs, þar á meðal varaformaðurinn Hlín Ástþórsdóttir. Formaðurinn Hörður J. Oddfríðarson býður sig fram til endurkjörs.

Þá mun landsliðsþjálfarinn Jacky Pellerin láta af störfum eftir HM í 50 metra laug í sumar. Fyrir þinginu liggur tillaga um að ráða íþróttafulltrúa sem hefði með höndum verkefni landsliðsþjálfara.

Athygli vekur að Hrafnhildur býður sig fram sem meðstjórnanda til tveggja ára, en ekki er algengt að afrekskeppendur gegni stjórnunarstörfum í íþróttasamböndum sínum. Hún býður sig fram til tveggja ára, en það gerir Margrét Gauja Magnúsdóttir úr ÍBH einnig.

Björn Sigurðsson ÍBH, Hilmar Örn Jónasson ÍRB, Jón Hjaltason ÍBR og Jóna Margrét Ólafsdóttir UMSK bjóða sig fram sem meðstjórnendur til 4 ára. Eva Hannesdóttir ÍBR og Helga Sigurðardóttir ÍBR bjóða sig fram sem varastjórnamenn til 2 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert