Vildu ekki mæta Gunnari

Gunnar Nelson átti ekki í neinum vandræðum með andstæðing sinn …
Gunnar Nelson átti ekki í neinum vandræðum með andstæðing sinn um síðustu helgi. mbl.is/Eggert

Alan Jouban, sá sem Gunnar Nelson vann á UFC-kvöldinu í London um síðustu helgi, segir fjóra bardagakappa hafa neitað tilboði um að keppa við Gunnar áður en að Jouban hafi boðist það.

Jouban greindi frá þessu í viðtalsþætti við MMA H.E.A.T. og sagðist sjálfur ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar honum bauðst að mæta Gunnari. Eftir bardagann, sem Gunnar vann af miklu öryggi, þakkaði Gunnar Bandaríkjamanninum ítrekað fyrir að hafa verið tilbúinn í slaginn, sem Jouban þótti nokkuð undarlegt:

„Ég fór á barinn eftir bardagann og átti þar gott spjall við Gunnar um bardagafræðin og fleira, og það var greinilega gagnkvæm virðing á milli okkar. Þetta var gott samtal, við fengum okkur bjór, en Gunnar var alltaf að þakka mér fyrir að hafa samþykkt bardagann. „Af hverju er hann alltaf að segja þetta?“ hugsaði ég með mér. Þá sagði hann að ég hefði verið fimmti maðurinn sem þeir reyndu að fá til að taka þennan bardaga,“ sagði Jouban.

„Ég samþykkti bardagann strax og mér fannst þetta stórskrýtið. Ég veit ekki hverjir hinir bardagakapparnir voru en ég held að hann hafi sagt að [Jorge] Masvidal væri einn þeirra, Stun Gun [Dong Huyn Kim] annar og kannski [Neil] Magny. Menn sem töldu ekki vit í því fyrir sig að samþykkja bardagann. Þeir sáu bardaga við Gunnar sem óskynsamlegt skref og vildu ekki þurfa að eiga við hans fjölhæfni,“ sagði Jouban. Hann ræðir nánar um bardagann við Gunnar í viðtalinu sem sjá má hér að neðan.

Á nýjum styrkleikalista UFC er Gunnar áfram í 9. sæti í veltivigtinni, en Jorge Masvidal er í 5. sæti, Neil Magny í 6. sæti og Dong Hyun Kim í 7. sæti. Gunnar átti að mæta Kim í Belfast í nóvember en varð að hætta við vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert