Þú ættir að sjá hina gelluna

Sunna Rannveig og Mallory Martin í bardaganum í gær.
Sunna Rannveig og Mallory Martin í bardaganum í gær. Ljósmynd/Joe Witcowski

„Heilsan er súper þó að það sjáist smá á andlitinu á mér, en þú ættir að sjá hina gelluna,“ sagði Sunna Rannveig Davíðsdóttir, en hún var ansi létt, ljúf og kát er mbl.is heyrði í henni í dag. Sunna vann virkilega góðan sigur á Mallory Martin á In­victa FC 22 kvöld­inu í MMA, blönduðum bardagalistum, í Kans­as í Banda­ríkj­un­um í nótt.

Hún var hörð og hugrökk

„Ég bólgnaði aðeins í kringum skurðinn á auganu á mér, annars er ég góð, bæði í líkamanum og höfðinu. Ég vissi að þetta yrði harður bardagi um leið og ég hitti hana í fyrsta skipti. Ég tel mig vera nokkuð góðan mannþekkjara og þegar við fórum í „face off" þá horfðumst við í augu og hún blikkaði ekki. Ég bjóst við því að ég myndi fá harðari andstæðing en ég hef fengið áður og hún stóðst væntingar. Hún var hörð, hugrökk og var ekki að gefast upp þótt hún hafi fengið högg á sig.“

Martin vann 2. lotuna og virtist Sunna hafa fundið vel fyrir höggunum hennar. Sunna kom hins vegar sterk til baka í 3. lotu og vann bardagann. 

Þurfti að leita að styrk innra með mér

„Hún lét fyrir sér finna í annarri lotu, en þá kviknar á mér. Ég þekki það vel að koma til baka eftir erfiðleika og ég þurfti að leita að styrk innra með mér. Ég vissi að ég þurfti að gefa meira í þá.“

Sunna var tilfinningarík, bæði í viðtali fyrir bardagann, sem og er hún var krýndur sigurvegari og virtist hún eiga erfitt með að halda aftur af tárunum.

„Þessi stuðningur sem ég fæ frá dóttur minni er svakalegur. Svo hugsa ég til pabba míns og systur minnar, þar sem þau eru farin. Ég hugsa til þeirra fyrir alla bardaga og þegar á móti blæs, þá sæki ég styrkinn þangað. Ég tek það með mér í búrið og ég fæ mikinn styrk við það.“

Þrátt fyrir hörð átök í gær getur hún vart beðið eftir næsta bardaga. 

Tilbúin að berjast eftir tvo mánuði

„Ég vona að ég fái næsta bardaga sem fyrst. Það er bardagakvöld í maí og ég vona að ég fái bardaga þá. Núna ætla ég aðeins að njóta, þar sem ég fæ einn dag í Kansas til að rölta um og skoða. Ég ætla að fá mér eitthvað gott að borða og eiga góðar stundir. Ég flýg heim á morgun og þá ætla ég að lenda í faðmi fjölskyldunnar og njóta þess að vera með þeim í nokkra daga.“

„Ég og dóttir mín erum að fara til Póllands í fjórar nætur í næstu viku. Þegar ég kem heim frá Póllandi ætla ég að fara yfir það sem þarf að laga. Ég gerði margt rétt í þessum bardaga, en líka mistök. Maður er alltaf að reyna að bæta sig og ég mun vinna í því sem ég þarf að vinna í og ég horfi jákvæðum augum á framtíðina, þetta er rétt að byrja.“

Sunna segist vera ansi nálægt því að komast að hjá UFC, stærsta sambandi blandaðra bardagalista í heiminum, og á hún jafnvel von á að fá tækifæri þar, vinni hún næsta bardaga. Hún hefur barist tvisvar sem atvinnumaður og unnið báða bardaga sína. 

UFC handan við hornið

„Ég er búin að vekja nokkuð góða athygli á mér. Ef ég vinn næsta bardaga og verð með 3:0 þá er UFC handan við hornið. Ég nýt þess hins vegar að vera þar sem ég er núna. Invicta er búið að koma rosalega vel fram við mig og ég kann vel við að berjast þar. Ég tek því sem kemur að mér, ef UFC kallar er ég tilbúin að taka það skref. Eftir næsta bardaga verð ég orðin nokkuð reynslurík í kringum þessi stóru sambönd og verð tilbúin að taka næsta skref,“ sagði Sunna Rannveig. 

Sunna á leiðinni í búrið í nótt.
Sunna á leiðinni í búrið í nótt. Ljósmynd/Joe Witcowski
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert