HK með forystu í einvíginu

Hart barist í fyrsta úrslitaleik Stjörnunnar og HK í kvöld.
Hart barist í fyrsta úrslitaleik Stjörnunnar og HK í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

HK er komið yfir í einvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í blaki eftir 3:1-sigur á Stjörnunni í fyrsta úrslitaleik liðanna í Ásgarði í Garðabæ í kvöld.

HK vann fyrstu hrinuna, 25:21, en önnur hrina fór í upphækkun og hana vann HK 29:27. Stjarnan minnkaði muninn með sigri í þriðju hrinu, 25:20, en HK tryggði sér svo sigur í leiknum með því að taka fjórðu hrinuna 25:17.

Theódór Óskar Þorvaldsson var stigahæstur einu sinni sem oftar hjá HK í vetur, en hann skilaði 20 stigum. Næstur kom Andreas Hilmir Halldórsson með 28 stig. Hjá Stjörnunni var Michael Pelletier stigahæstur með 21 stig en á eftir honum kom Róbert Karl Hlöðversson með 14 stig.

Þrjá sigra þarf til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn, en liðin mætast að nýju í Fagralundi á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta, klukkan 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert