Andlát: Landsliðsþjálfarinn Hu Dao Ben

Hu Dao Ben.
Hu Dao Ben.

Hu Dao Ben, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í borðtennis, lést 14. apríl, 72 ára að aldri.

Hu var á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar í kínverska karlalandsliðinu og varð hann tvisvar sinnum heimsmeistari með liði Kínverja í liðakeppni. Komst hann hæst í áttunda sæti á styrkleikalista Alþjóðaborðtennissambandsins. Hann kom fyrst til Íslands árið 1989, þá 45 ára að aldri, en hann hafði áður verið í þjálfarateymi kínverska landsliðsins, svæðisþjálfari í Peking og einnig þjálfari á Ítalíu og Kýpur eftir að hafa lagt spaðann á hilluna.  

Frá 1989 til 1990 var hann þjálfari hjá Stjörnunni í Garðabæ og hjá Víkingum frá 1990. Var hann fyrst valinn landsliðsþjálfari árið 1990 og fór hann þá með liðinu á Smáþjóðaleikana í Lúxemborg í ágúst það ár og árið eftir fór hann með landsliðinu á heimsmeistaramótið í Japan.

Frá þeim tíma hefur hann snert líf og borðtennisferil fjölda íslenskra iðkenda á öllum aldri, bæði sem þjálfari hjá Víkingum og sem unglingalandsliðs- og landsliðsþjálfari. Var hann meðal annars þjálfari landsliðsins í fjölmörgum landskeppnum við Færeyinga og Evrópumótum m.a. í í undankeppni EM í Aþenu í Grikklandi 1991, Stuttgart í Þýskalandi 1991, Birmingham 1994 og í eftirminnilegum sigri íslenska landsliðsins undir 16 ára við unglingalandslið Svía í mars 1994.

Þá var hann þjálfari liðsins í riðlakeppni Evrpópumótsins í Lúxemborg 1999 og Wales 2001, á Evrópumótinu í Bremen í Þýskalandi árið 2000 og Ítalíu 2003. Einnig var hann þjálfari landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Manchester í Englandi 1997, Malasíu árið 2000, Japan árið 2001 og París 2003.

Bestum árangri í liðakeppni EM og HM hefur íslenskt landslið náð undir handleiðslu Hu Dao Ben. Braut hann ásamt leikmönnum íslenska landsliðsins blað á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg 1999 þegar íslenska karlaliðið endaði í 2. sæti leikanna. Einnig fór hann með liðinu á Smáþjóðaleikana í San Marinó árið 2001. Var hann þjálfari liðsins á Norður-Evrópumótinu í Litháen 2002.

Hu var þjálfari Víkinga í fjölmörgum keppnum í liðakeppni bikarhafa, m.a. við lið Waldegg Linz frá Austurríki 1992, lið Hapoel Ramat-Gan frá Ísrael 1995 og lið Bordeaux frá Frakklandi 1999. Auk þess var hann einnig leiðbeinandi í borðtennis t.d. í Suðurhlíðarskóla og fór með ungt lið Víkinga í eftirminnilega æfinga- og keppnisferð árið 1993 til Kína.

Hu hafði á farsælum ferli sínum verið sæmdur gullmerki BTÍ og heiðursmerki BTÍ árið 2016 auk þess sem borðtennisdeild Víkinga hafði margsinnis heiðrað hann með viðurkenningum.

„Fallinn er frá mikilsmetinn maður og afburðaþjálfari sem setti mark sitt á íslenskan borðtennis og verður hans ávallt minnst með hlýhug,“ segir í tilkynningu frá Borðtennissambandinu, sem birtir myndir af ferli hans á heimasíðu sinni sem sjá má HÉR.

Deildarmeistarar Víkings í borðtennis 2002, 8. árið í röð eftir …
Deildarmeistarar Víkings í borðtennis 2002, 8. árið í röð eftir sigur á KR, 6-1. Guðmundur E. Stephensen, Sigurður Jónsson, Markús Árnason, Adam Harðarson og þjálfarinn Hu Dao Ben. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert