Skíðaveisla á Akureyri um helgina

Það er alltaf mikið stuð með Andrési.
Það er alltaf mikið stuð með Andrési. Ljósmynd/Skíðafélag Akureyrar

Andrésar andar leikarnir verða settir í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld en fimmtudag, föstudag og laugardag er svo keppt í öllum greinum. Leikarnir eru stærsta skíðamót landsins með um 800 keppendur á aldrinum 5-15 ára ár hvert.

Þeim fylgja þjálfarar, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um 2500-3000 manns sæki leikana.

Um langt skeið hefur verið keppt bæði í alpagreinum skíðaíþrótta sem og skíðagöngu, en árið 2012 var í fyrsta skipti keppt á snjóbrettum og hefur sú grein verið að eflast og stækka innan leikanna.

Einnig hefur verið keppt í svokölluðum stjörnuflokki um nokkurra ára skeið, en þar keppa fatlaðir eða hreyfihamlaðir íþróttamenn.

Eftir risjóttan skíðavetur um allt land eru aðstæður í Hlíðarfjalli nú með góðu móti þó snjór sé ekki mikill. Búast mótshaldarar við miklu fjöri á leikunum í ár. Nú þegar hafa um 775 börn verið skráð frá 18 félögum á Íslandi, en einnig er búist við nokkrum gestum frá Noregi. Flestir iðkendur koma frá heimamönnum í SKA eða 113 keppendur. Flestir alpagreinakrakkar koma hinsvegar frá Ármanni í Reykjavík; 93 krakkar. Flestir göngukrakkar eru frá Ísafirði; 43 einstaklingar. Brettakrakkar koma flest frá Brettafélagi Hafnarfjarðar; 39 krakkar.  

Nú er í annað skipti sem 5 ára börnum er boðið að taka þátt í leikunum en það þótti heppnast vel í fyrra. Börnin taka þátt í leikjabraut þar sem allt snýst um að vera með og skemmta sér, en ekki að vinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert