HK tryggði sér oddaleik

Leikmenn HK fagna í kvöld.
Leikmenn HK fagna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

HK lagði Aftureldingu 3:1 í fjórða leik liðanna í rimmunni um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki að Varmá í kvöld og því ljóst að liðin mætast í hreinum úrslitaleik í Fagralundi í Kópavogi á fimmtudaginn. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Hrina IV: Staðan er 1:2

13:25 Sigur hjá HK og liðin mætast fimmta sinni í hreinum úrslitaleik á fimmtudaginn.

10:18 Hanna María með frábærar uppgjafir og fær nokkra ása í röð.

10:15 Annað leikhlé hjá Aftureldingu, það fyrra náði ekki að hægja á HK.

9:12 Afturelding tekur leikhlé enda hallar aðeins á liðið rétt þessa stundina og um að gera að hægja á HK og leikhlé eru oft heppileg til þess ef annað  dugar ekki til.

8:8 Allt í járnum hér eins og svo oft áður og þetta ræðst trúlega á því hvort liðið verður heppnara með að fá stig úr erfiðum færum.

5:2 Afturelding byrjar betur og HK vantar alveg að koma boltaunum á Fríðu í sókninni því hún skorar oftast þegar hún fær hann, eða gerir eitthvað sem reynist mótherjunum erfitt að vinna úr.

Hrina III: Staðan er 1:1

23:25 Sigur hjá HK og er liðið nú í vænlegri stöðu til að tryggja sér hreinina úrslit í Fagralundi á fimmtudaginn. Þessi hrina var ekki síður skemmtile en fyrri tvær og satt best að segja væri ég alveg til í að sjá einn leik til viðbótar milli þessara liða því það er hin besta skemmtun. Eflaust eru Mosfellingar ekki sammála mér.

22:24 Var ekki fyrr búinn að gera að því skóna að Afturelding tæki þessa hrinu en þær breyttu stöðunni úr 21:19 í 21:22 og vantar bara eitt stig núna til að hafa hrinuna. Afturelding tekur leikhlé.

21:19 HK komst í 16:18 en heimakonur tóku þá við sér og ekki ólíklegt að þær taki þessa hrinu, hollningin er þannig á þeim.

16:17 Já þetta er fljótt að breytast og Afturelding tekur leikhlé. Flottur kafli hjá HK og Fríða að gefa upp.

16:12 HK minnkaði muninn í eitt stig en nú er UMFA aftur komið með ágæta forystu þó svo hún geti verið fljót að fara í blaki.

9:6 Heimaliðið komið með undirtökin og HK tekur leikhlé. Áfram pressa liðin uppgjafir gríðarlega og Kristín Salín uppspilari var að setja eina af sínum stórhættulegu laumum i gólfið hjá HK.

4:4 Allt í járnum, HK fékk fyrsta stigið aldrei þessu vant og síðan komst Afturelding í 3:1.

Hrina II: Staðan er 0:1

25:21 Skemmtilegri hrinu lokið með sigri Aftureldingar og staðan því jöfn. Þessi hrina einkenndist af mikilli pressu í uppgjöfum sem varð til þess að sóknir liðanna urðu ekki eins skemmtilegar og oft áður. En frábær hrina engu að síður.

20:16 Afturelding tekur leikhlé eftir nokkur stig í röð hjá HK þar sem Fríða er í uppgjöf og hún kann þetta allt saman. Flottar uppgjafir hjá henni.

19:11 Ekkert gengur hjá HK og Ceannia er með frábærar uppgjafir fyrir heimaliðið.

15:8 Núna tekur Emil hins vegar leikhlé og kemur engum á óvart.

11:7 Heimaliðið búið að ná áttum og gengur ljómandi vel hjá þeim þessa stundina. Emil þjálfari HK er samt pollrólegur og tekur ekki leikhlé.

3:5 HK byrjar betur og heimakonur í mestu vandræðum með uppgjafir HK sem þýðir að sóknin verður veikari fyrir vikið.

Hrina I: 

22:25 Góður baráttusigur hjá HK þar sem liðið var undir megnið af hrinunni en gafst aldrei upp. Síðasta stigið hjá HK var trúlega ekki löglegt þar sem skellur liðsins fór í netbrúnina en dómarinn taldi boltann fara í hávörn Aftureldingar þannig að HK náði aftur sókn, við lítinn fögnuð heimamanna, en eins í öðrum íþróttum er það dómarinn sem hefur úrslitavaldið.

21:24 Annað leikhlé hjá heimaliðinu enda HK konur í miklum ham þessa stundina og gríðarleg barátta í báðum liðum.

21:22 Afturelding tekur leikhlé, en ég var búinn að bíða eftir að Emil þjálfari HK tæki hlé um miðbik hrinunnar, en hann lét það alveg vera.

20:18 HK minnkar muninn aðeins en nær þó ekki að minnka meira en í tvö stig. 

17:12 Sóknir Mosfellinga miklu beittari og HK á í miklum vandræðum með að skila boltanum vel fram á Birtu uppspilara sem á því í vandræðum með að skipuleggja sóknina.

11:9 HK komst í 7:9 en flottur kafli heimaliðsins skilaði því tveggja stiga forystu. Hörkuleikur í gangi hér í Mosfellsbænum.

6:6 HK svaraði byrjun Mosfellinga af fullri alvöru og gerðu næstu fjögur stig, 3:4, síðan hefur verið jafnt á öllum tölum.

3:0 Afturelding byrjar betur með Kristínu Salínu í uppgjöf. Fá fyrstu þrjú stigin.

UMFA: Sigdís Lind Sigurðardóttir, Velina Apostolova, Kristina Apostolova, Karitas Ýr Jakobsdóttir, Karen Björg Gunnarsdóttir, Fjóla Rut Svavarsdóttir, Kristín Salín Þórhallsdóttir, Thelma Dögg Grétarsdóttir, Steinunn Guðbrandsdóttir, Kate Yeazel, Hilma Jakobsdóttir, Ceannia Kincade.

HK: Hjördís Eiríksdóttir, Matthildur Einarsdóttir, Edda Björk Ásgeirsdóttir, Guðbjörg Valdimarsdóttir, Amelia Rún Jónsdóttir, Birta Björnsdóttir, Laufey Björk Sigmundsdóttir, Fríða Sigurðardóttir, Sigríður Gísladóttir, Elísabet Einarsdóttir, Hanna María Friðriksdóttir, Steinunn Helga Björgólfsdóttir.

Fyrsta leikinn vann HK 3:0 í Kópavoginum, Afturelding svaraði á heimavelli með 3:2 sigri og náði síðan forystu í einvíginu með 3:1 sigri í Kópavogi á dögunum.

Búast má við hörkuleik enda er Afturelding núverandi Íslandsmeistari og bikarmeistari varð liðið á dögunum. HK varð hins vegar deildarmeistari fyrr í vetur og ef marka má leiki liðanna í úrslitakeppninni síðustu ár er ekki við neinu öðru að búast en miklum baráttuleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert