Annaðhvort sigur eða í sumarfrí

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við verðum með sama lið og í síðustu viðureign gegn FH,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik karla, við Morgunblaðið í gær. Afturelding sækir FH heim í Kaplakrika í kvöld í þriðju undanúrslitaviðureign liðanna á Íslandsmótinu.

Einar Andri og lærisveinar eru í slæmri stöðu eftir að hafa tapað tveimur fyrstu leikjum rimmunnar, 28:27 og 28:25.

„Við stöndum frammi fyrir tveimur möguleikum, annaðhvort að vinna leikinn eða að fara í sumarfrí,“ sagði Einar Andri og hélt þétt að sér spilunum enda í þröngri stöðu með bakið þétt við vegginn góða.

Afturelding hefur leikið til úrslita tvö síðustu ár en tapi liðið í kvöld verður möguleikinn á að fara í úrslit þriðja árið í röð úr sögunni.

FH var í svipaðri stöðu í undanúrslitaeinvígi sínu við Hauka fyrir þremur árum. FH var þá undir stjórn Einars Andra. FH vann tvo fyrstu leikina áður en Haukar, þá undir stjórn Patreks Jóhannessonar, núverandi landsliðsþjálfara Austurríkis, sneru taflinu við og unnu þrjá síðustu leikina og tryggðu sér sæti í úrslitum.

Leikurinn í Kaplakrika í kvöld hefst klukkan 20 en húsið verður opnað hálfum öðrum tíma áður. Mikið verður um dýrðir í Kaplakrika í tengslum við viðureignina og er fólki bent á að mæta tímanlega. Ekki er annað vitað en Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, geti teflt fram sinni vöskustu sveit í leiknum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert