Eins og ein fjölskylda

„Þetta var frábært. Mér fannst eins og þær væru búnar á því í síðasta leik og það var frábært að vinna þetta hér,“ sagði Fríða Sigurðardóttir, fyrirliði HK í blaki, eftir að hún hafði tekið við Íslandsmeistarabikarnum í Fagralundi í gærkvöldi.

HK lagði þá Aftureldingu 3:1 í hreinum oddaleik um titilinn. HK konur voru mun sterkari í kvöld og sigurinn sanngjarn. Þetta var fimmti Íslandsmeistaratitill kvennaliðs HK í blaki, en liðið sigraði fyrst árið 1995, síðan 2009, 2010 og 2015.

Fríða er búin að vera lengi að, byrjaði í blaki árið 1990 og í meistaraflokki árið 1996, en nú ætlar hún að segja þetta gott. „Þetta var síðasti leikurinn minn, þetta er búið,“ sagði hún með blómvöndinn í fanginu sem henni var afhentur eftir leikinn, enda búin að vinna langt og gott starf fyrir íþróttina.

En hverju þakkar hún sigurinn? „Vinnu. Við erum búnar að æfa rosalega vel, allt baklandið er frábært hjá HK, þjálfarateymið og þeir sem eru í kringum blakið. Þetta er eins og stór fjölskylda,“ sagði stoltur fyrirliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert