„Get ekki litið upp til hennar lengur“

Maria Sharapova, til hægri, og Eugenie Bouchard heilsast á Opna …
Maria Sharapova, til hægri, og Eugenie Bouchard heilsast á Opna ástralska meistaramótinu áður en Sharapova fékk bann. AFP

Tennisstjarnan Maria Sharapova sneri aftur á völlinn í gær eftir að hafa verið úrskurðuð í 15 mánaða keppnisbann vegna lyfjamisnotkunar. Ekki eru þó allir á eitt sáttir við það.

Sharapova var fyrst úrskurðuð í tveggja ára bann, sem var svo stytt í 15 mánuði. Í gær gat hún því keppt á Opna Stuttgart-mótinu og vann í fyrstu umferð. Kanadíska tenniskonan Eugenie Bouchard segist ekki geta litið upp til hinnar rússnesku aftur.

„Ég held að verið sé að senda röng skilaboð til ungra iðkenda: Svindlaðu og við tökum þér aftur með opnum örmum. Það er ekki rétt og ég mun ekki geta litið upp til hennar lengur. Þetta er svo ósanngjarnt gagnvart öðrum leikmönnum sem hafa alltaf breytt rétt,“ sagði Bouchard.

Sharapova hefur unnið fimm risamót á ferli sínum, en hún er nú ekki með nein stig á heimslistanum eftir að hafa verið frá í svo langan tíma. Hún þarf því að treysta á að fá svokallað „wildcard“ til þess að fá að keppa á risamótinu Opna franska meistaramótinu í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert