Stórt stökk í átt til Kóreu

Helga María Vilhjálmsdóttir,
Helga María Vilhjálmsdóttir, Ljósmynd/Benedikt Hermannsson

Helga María Vilhjálmsdóttir hefur aukið möguleika sína verulega á að komast á Vetrarólympíuleikana í PyeongChang í Suður-Kóreu sem hefjast í febrúar á næsta ári. Helga María hefur í þessari viku tekið þátt í tveimur nokkuð sterkum risasvigmótum í Noregi og fengið svo lága FIS-punkta að hún mun rjúka upp sérstakan ólympíustyrkleikalista næst þegar hann verður reiknaður.

Mótin tvö sem Helga María keppti á fóru fram í Hemsdal í Noregi. Hún varð í 8. sæti á þeim báðum og fékk sína bestu FIS-punkta í risasvigmóti frá upphafi á 22 ára afmælisdaginn sinn, á þriðjudag. Þá fékk hún 33,68 punkta og í gær fékk hún svo 36,69 punkta, en í alpagreinum reyna keppendur að fá sem fæsta punkta á hverju móti.

Árangur Helgu Maríu er sérstaklega athyglisverður í ljósi þess að hún sleit krossband í nóvember árið 2015 og var frá keppni þar til um síðustu áramót. Hún braut svo bein í vinstri þumalfingri í undirbúningi fyrir HM í febrúar og óvíst var að hún gæti keppt meira á tímabilinu, sem hún er nú hins vegar að ljúka með glæsibrag.

Ísland er öruggt um eitt sæti fyrir skíðakonu og eitt sæti fyrir skíðakarl á Vetrarólympíuleikunum. Helga María hefur með árangri sínum í risasviginu styrkt stöðu sína á ólympíulistanum verulega gagnvart stöllum sínum í landsliðinu, Freydísi Höllu Einarsdóttur og Maríu Guðmundsdóttur, ef barátta þeirra stendur um eitt sæti. María hefur verið frá keppni vegna meiðsla í allan vetur.

Nánar er fjallað um möguleika Helgu Maríu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert