HK konur voru frábærar

HK fagnar með bikarinn í gærkvöld.
HK fagnar með bikarinn í gærkvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir að hafa lent 1:2 undir í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna á móti Aftureldingu kom kvennalið HK gríðarlega sterkt til leiks og vann tvo leiki í röð 3:1 og tryggði sér þar með sinn fimmta Íslandsmeistaratitil. HK er því tvöfaldur meistari í blaki í ár því karlaliðið vann líka titilinn á dögunum.

Það var ekki laust við að tár féllu í Fagralundi í gærkvöldi þar sem tæplega 400 áhorfendur mættu til að fylgjast með leik liðanna, en rimma þeirra hefur verið hreint frábær og lítil breyting varð í gærkvöldi þó svo HK hefði nokkra yfirburði. Leikur liðsins var með þeim hætti að Mosfellingar áttu litla möguleika þrátt fyrir að hafa betur 25:22 í fyrstu hrinunni. HK svaraði með 25:18 sigri og síðan valtaði liðið hreinlega yfir Aftureldingu í þriðju hrinu sem liðið vann 25:6. Slíkar tölur eru ekki algengar í blakinu og allra síst í hreinum oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Fjórða hrinan endaði síðan 25:21 við mikinn fögnuð flestra í Fagralundi, nema auðvitað leikmanna og stuðningsmanna Aftureldingar, sem sáu þarna af titlinum. Liðið varð hins vegar bikarmeistari í vetur þannig að þessi tvö frábæru lið skiptu þessu nokkuð jafnt á milli sín. HK deildar- og Íslandsmeistari og Afturelding bikarmeistari.

HK lék mjög vel, allir leikmenn voru greinilega tilbúnir í þetta verkefni, skipulagið var gott, uppgjafir gríðarlega góðar og sóknir Mosfellinga fyrir vikið ekki nægilega beittar á stundum. Birta uppspilari átti flottan leik, Hjördís, Steinunn Helga frelsingi, Fríða miðjumaður, Elísabet og Hanna María stóðu sig allar mjög vel eins og reyndar allar sem við sögu komu í leiknum.

Hjá Aftureldingu var Ceannia lunkin að skella á mótherjana en annars náði liðið sér ekki á strik í gærkvöldi.

Fríða Sigurðardóttir, fyrirliði HK, sagði við Morgunblaðið eftir leikinn að þetta hefði verið sinn síðasti leikur. Þá átti hún trúlega við í efstu deild því strax í dag mætir hún til leiks á Öldungamótinu í blaki sem fram fer í Mosfellsbæ, en þar mæta tæplega 180 lið til leiks. Síðan mun hún klára verkefni ársins með landsliðinu.

„Þetta er búið, það er komið nóg,“ sagði hún eftir leikinn. Fríða byrjaði í blaki árið 1990 og í meistaraflokki árið 1996 þannig að þar hefur hún leikið í rúma tvo áratugi. Það verður sjónarsviptir að henni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert