Rann eitrað blóðið til skyldunnar

Þormóður Árni Jónsson á efsta þrepinu á verðlaunapallinum í Svíþjóð …
Þormóður Árni Jónsson á efsta þrepinu á verðlaunapallinum í Svíþjóð á laugardaginn með gullverðlaun um hálsinn. Ljósmynd/JSÍ

Þormóði Árna Jónssyni tókst að verða Norðurlandameistari í júdó í Trollhättan í Svíþjóð á sunnudaginn þrátt fyrir að vera nýhættur á sýklalyfjum vegna blóðeitrunar. Veikindin héldu Þormóði frá keppni á Íslandsmótinu í lok apríl og segir Þormóður að sér hafi fundist hann þurfa að skila gullverðlaunum í hús á Norðurlandamótinu í staðinn.

„Fyrir þremur vikum taldi ég mig vera að fá flensu en þá var vika í Íslandsmótið. Ég velti því ekki nógu mikið fyrir mér, tók hitalækkandi lyf og harkaði af mér í tvo til þrjá daga vegna þess að ég fór í lokapróf í mastersnáminu mínu. En þegar ég tók eftir útbrotum á fótunum þá fór ég til læknis. Hann greindi mig með sýkingu en líklegast er að ég hafi fengið skurð á æfingu og í sárið hafi komist baktería. Hún fór hins vegar ekki bara í húðina heldur einnig í blóðrásina og bakterían var greinilega hættuleg. Hún dreifði sér upp í nára og ég var orðinn alveg fárveikur.

Eftir viku í þessum veikindum þá fór ég upp á spítala og fékk sýklalyf í æð þrisvar á dag,“ segir Þormóður og viðurkennir að útlitið hafi nú ekki verið neitt sérstakt um tíma.

„Ég var alla vikuna eftir Íslandsmótið að jafna mig, lá bara heima með fótinn upp í loft. Átta dögum fyrir Norðurlandamótið tjáði læknirinn mér að óhætt væri að fara í rólegar gönguferðir. Ég fór þá í hálftíma göngutúr í Öskjuhlíðinni en leið eins og ég hefði farið í gegnum maraþonhlaup. Ég var eftir mig vegna veikindanna og lyfjanna. Var kraftlítill og ekki eins og ég á að mér að vera. En ástandið lagaðist frá degi til dags og ég fann ekki fyrir þessu í mótinu og hef því væntanlega verið búinn að ná þessu úr mér,“ segir Þormóður en þrátt fyrir þessi skakkaföll setti hann samt sem áður stefnuna á gullverðlaun á NM í +100 kg flokki.

Nánar er rætt við Þormóð Árna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert