Þolinmóðir sigurvegarar á fyrsta stigamóti GSÍ

Fannar Ingi Steingrímsson.
Fannar Ingi Steingrímsson. Ljósmynd/Sigurður Elvar Þórólfsson

„Þetta er frábær tilfinning og ísinn er brotinn á Eimskipsmótaröðinni,“ sagði hinn 19 ára gamli Fannar Ingi Steingrímsson úr GHG í samtali við golf.is vef GSÍ eftir sigurinn á Egils Gullmótinu sem fram fór á Hólmsvelli í Leiru.

Fannar lék hringina þrjá á fimm höggum undir pari og var hann þremur höggum betri en Ragnar Már Garðarsson frá GKG. Dagbjartur Sigurbrandsson og Ingvar Andri Magnússon, báðir úr GR, deildu þriðja sætinu, en þeir eru 14 og 17 ára gamlir. Það voru því ungir kylfingar sem voru í fremstu röð í Leirunni í þetta skiptið.

„Ég setti mér það markmið að verða í einu af fimm efstu sætunum. Ég náði að spila vel á öðrum hringnum eftir að hafa verið frekar lengi í gang á fyrsta hringnum. Í dag komst ég að öllum mínum veikleikum og styrkleikum í golfinu. Þolinmæði er í raun lykilatriði á þessum velli, teighöggin eru ekki aðalmálið, heldur annað höggið og mér gekk ágætlega í því,“ sagði Fannar Ingi, sem lengi hefur þótt mjög efnilegur.

Berglind Björnsdótir.
Berglind Björnsdótir. Ljósmynd/seth@golf.is

Berglind ætlar sér stóra hluti

Berglind Björnsdóttir úr GR sigraði í kvennaflokki og hún lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að sýna þolinmæði rétt eins og Fannar. Berglind lék lokahringinn á 74 höggum, eða á tveimur yfir pari, við nokkuð krefjandi aðstæður, en töluverður vindur var á Hólmsvelli á lokahringnum.

Berglind lék hringina þrjá á +6 samtals og var hún þremur höggum betri en Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR, sem varð stigameistari Eimskipsmótaraðarinnar 2016. Þetta er fimmti sigur Berglindar á Eimskipsmótaröðinni frá upphafi, en hún hefur titil að verja á Íslandsmótinu í holukeppni í sumar.

„Þolinmæði í skemmtilegum vindi alla daga er það sem lýsir þessu móti hjá mér best,“ sagði Berglind, en hún ætlar sér stóra hluti í sumar og haust.

„Þetta var nokkuð stöðugt hjá mér og ég bætti sláttinn jafnt og þétt allt mótið. Ég er búin að keppa á þremur mótum til þessa og markmiðið er að keppa eins mikið og hægt er í sumar. Í haust ætla ég að fara í úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina. Ég hef æft vel og mikið í vetur, og í sumar ætla ég að bæta enn frekar við keppnisreynsluna með því að keppa eins mikið og hægt er,“ sagði Berglind.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert