Sár töp hjá landsliðunum

Kvennalandsliðið í blaki. Efri röð frá vinstri: Ásthildur Gunnarsdóttir, Hjördís …
Kvennalandsliðið í blaki. Efri röð frá vinstri: Ásthildur Gunnarsdóttir, Hjördís Eiriksdóttir, Fríða Sigurðardóttir, Elísabet Einarsdóttir, Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, Fjóla Rut Svavarsdóttir, Thelma Dögg Grétarsdóttir, Erla Rán Eiriksdóttir, Neðri röð frá vinstri: María Rún Karlsdóttir, Berglind Gígja Jónsdóttir, Steinunn Helga Björgólfsdóttir, Birta Björnsdóttir, Karen Björg Gunnarsdóttir, Rósa Dögg Ægisdóttir.

Bæði karla-og kvennalið Íslands í blaki máttu sætta sig við sár töp í 2. umferð undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Póllandi og Frakklandi þessa dagana. Bæði liðin töpuðu 3:0 fyrir sínum andstæðingum í dag.

Kvennalandsliðið mætti Tékkum í Varsjá og átti þar erfitt uppdráttar. Tékkar unnu fyrstu hrinuna 25:6, þá næstu 25:7 og þriðju hrinuna 25:13. Þetta var þriðja tap liðsins í jafnmörgum leikjum, en Ísland mætir Kýpur á laugardag og Slóvakíu á sunnudag. Hjördís Eiríksdóttir skoraði flest stig, sjö talsins.

Karlaliðið mætti Tyrkjum í Lyon og var sú viðureign töluvert meira spennandi. Engu að síður voru það þó Tyrkirnir sem höfðu betur, 25:18, 25:23 og 25:17. Þetta var annar leikur liðsins eftir að hafa tapað 3:0 fyrir Frökkum í gær. Theódór Óskar Þorvaldsson skoraði 10 stig og Alexander Stefánsson 7.

Karlalandsliðið mætir Þýskalandi á morgun, Úkraínu á laugardag og Aserbaídsjan á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert