Snéri til baka eftir hnífstungu

Petra Kvitova eftir leikinn í dag.
Petra Kvitova eftir leikinn í dag. AFP

Tékkneski tennisspilarinn Petra Kvitova var klökk í kjölfar þess að hafa spilað sinn fyrsta leik eftir að hafa lent í hnífstungu í ráni í desember síðastliðnum. Kvitova lagði ameríska tennisspilarann Juliu Boserup að velli í fyrstu umferð opna franska meistaramótsins í tennis kvenna í París í dag.  

Kvitova, sem tvívegis hefur orðið Wimbledon-meistari á ferli sínum, hóf æfingar í mars síðastliðnum, 12 vikum eftir líkamsárásina. Kvitova hóf síðan æfingar af fullum krafti fyrr í þessum mánuði og sneri aftur á völlinn í dag. 

Kvitova mun annaðhvort mæta Bandaríkjamanninum Bethanie Mattek-Sands eða hinni rússnesku Evgeniyu Rodinu í næstu umferð.

Þýksi tennisspilarinn Angelique Kerber varð í dag fyrsti tennisspilarinn sem er í efsta sæti heimslistans til þess að falla úr leik í fyrstu umferð opna franska meistaramótsins í tennis kvenna, en hún beið lægri hlut gegn hinni rússnesku Ekaterinu Makarovu.

Rúmeninn Simona Halep og Tékkinn Karolina Pliskova eiga því báðar möguleika á því að hrifsa efsta sæti heimslistans af Kerber með góðum árangri í París. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert